Það kom mörgum á óvart að hvergi var minnst á aðgerðir fyrir heimilin í aðgerðapakka stjórnvalda sem kynntur var í gær þrátt fyrir fyrirheit um það vikurnar á undan.
Félagsmálaráðherra segir að úrræði muni koma og jafn mikilvægt sé að verja heimilin sem sama hætti og fyrirtækin.
„Við höfum verið að vinna aðgerðir í húsnæðismálum og fyrir heimilin sem að við gerum ráð fyrir að komi inn á seinni stigum. Það var ekki inni í þessum pakka núna. Við gerum ráð fyrir að eftir því sem að atvinnuleysi dragist á langinn þá muni þurfa frekari aðgerðir fyrir húsnæðismál og fyrir heimilin. Við erum að vinna í því og forma það dag frá degi. Ég held að það sé algjörlega ljóst og við munum koma með aðgerðir þar enda er það fullkomlega eðlilegt og ég er algjörlega sammála því að það er mikilvægt að verja heimilin með sama hætti og fyrirtækin,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.