Líkt og oft áður var Toyota vinsælasti framleiðandinn á Íslandi með 1.610 nýskráningar fólks- og sendibíla. Næst á eftir kemur KIA með 949 bifreiðar og Tesla með 907.
Toyota RAV4 var þriðja vinsælasta undirtegundin á síðasta ári með 532 nýskráningar. Alls voru 9.369 nýir fólksbílar nýskráðir árið 2020 sem er um 20% fækkun frá árinu áður, samkvæmt samantekt Bílgreinasambandsins.
Nýorkubílar sækja í sig veðrið
Nýorkubílar á borð við rafmagn-, tvinn-, tengiltvinn og metanbíla voru 57,9% allra nýskráðra fólksbíla. Er þar um að ræða stórt stökk milli ára en 27,6% nýskráðra fólksbíla voru nýorkubílar árið 2019.
Í fyrra voru 25,2% af öllum nýskráðum fólksbifreiðum hreinir rafmagnsbílar, 19,9% tengiltvinnbílar, 12,5% tvinnbílar og 0,4% metanbílar. Er hlutfall nýorkubíla einungis talið vera hærra í Noregi.
Bílgreinasambandið spáir 17,4% söluaukningu á nýjum fólksbílum á þessu ári. Þó er óvissan sögð vera tiltölulega mikil þegar kemur að því að spá fyrir um sölu, einkum sökum áhrifa heimsfaraldursins.