Almennt atvinnuleysi jókst um 0,1 prósentustig í desember en það mældist 10,6% í nóvember. Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli stóð nærri í stað milli mánaða en 340 færri einstaklingar voru á hlutabótum í lok desember. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar.
Alls höfðu 4.213 verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok desember, en 1.648 í desemberlok 2019. Hefur þeim því fjölgað um 2.565 eða sem nemur 156% hækkun milli ára.
24% erlendra ríkisborgara án atvinnu
Erlendir atvinnuleitendur í almenna atvinnuleysiskerfinu voru 8.728 í lok desember. Þessi fjöldi samsvarar rúmu 24% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.
Alls voru 21.365 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok desembermánaðar og 5.108 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 26.473 manns.
Alls bárust 3 tilkynningar um hópuppsagnir í desember, þar sem 137 starfsmönnum var sagt upp störfum. Þar af voru 94 í þjónustustarfsemi ýmiss konar, 32 í iðnaði og 11 í flutningastarfsemi.
Áfram langmest á Suðurnesjum
Samanlagt atvinnuleysi í almenna kerfinu og í minnkaða starfshlutfallinu jókst alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það var óbreytt. Hlutfallslega jókst það minnst á Austurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra.
Á Suðurnesjum fór heildaratvinnuleysið úr 22,8% í nóvember í 23,3% í desember og var sem fyrr mest á landinu. Var það næstmest á höfuðborgarsvæðinu eða 12,0%. Á Norðurlandi eystra jókst það úr 9,1% í nóvember í 9,4% í desember og á Austurlandi úr 7,9% í 8,1%. Minnsta atvinnuleysið mældist á Norðurlandi vestra eða 5,4% og á Vestfjörðum eða 5,6%.
Atvinnuleysi er hærra meðal kvenna en karla á flestum svæðum nema á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra. Á Norðurlandi vestra er það svipað hjá körlum og konum.
Fréttin hefur verið uppfærð.