Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna venjulega upp úr sjö, en á það líka til að vakna fáránlega snemma án þess að ætla mér það, með heilann á fullri ferð og geta ómögulega sofnað aftur.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Það fyrsta sem ég geri er að klappa kisunum mínum sem sofa annað hvort ofan á mér eða límdar upp við mig.
Svo tek ég upp símann og hunsa allar ráðleggingar um að vera ekki í símanum uppi í rúmi, keyri upp birtuna í honum og les hvað vinir mínir, sem eru ýmist á öðrum tímabeltum eða miklar B-týpur, hafa verið að tala um síðan ég sofnaði.
Renni svo yfir fréttir dagsins áður en ég fer upp með köttunum, fóðra þá og fæ mér morgunmat með dóttur minni. Alltaf te og ristað brauð.
Logi sefur venjulega í gegnum þessa rútínu, en vaknar við ófriðinn í mér þegar ég kem úr sturtu og fer að klæða mig og taka mig til fyrir daginn.“
Hefur Covid breytt einhverju hjá þér á jákvæðan hátt?
Það er miklu minna á dagskránni utan vinnu og reyndar líka færri fundir í vinnunni. Fjarfundir hafa einnig gert það að verkum að það fer minni tími í þá fundi sem eru á annað borð haldnir. Fólk kemur sér meira að efninu og afgreiðir málin án útúrdúra.
Svo hef ég komið sjálfri mér á óvart, verandi talsverður einfari, því ég var farin að sakna samvista við fólk og finnst frábært, sérstaklega eftir hlé milli starfa í haust, að mæta alla daga á vinnustaðinn og hitta samstarfsfólkið.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst þessa dagana?
„Verkefnin eru mjög fjölbreytt, en undanfarið hefur það verið verið áætlanagerð og stefnumótun sem hefur fangað athyglina, með fram daglegum störfum og ýmsum útgáfuverkefnum sem við í Viðskiptaráði erum í.
Við erum til dæmis að kynna nýja útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti í næstu viku, sem hefur farið mikil vinna og tími í.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég vinn mikið með lista. Lista dagsins og svo langtímalista.
Ég skrifa hjá mér hugmyndir og slíkt og sendi sjálfri mér skilaboð á Signal til að tryggja að að ég missi ekki bolta og til að halda utan um hugdettur og hluti sem ég þarf að móta betur áður en þeir enda á listanum.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að vera komin upp í rúm um ellefu og hef mikla trú á því að sofa ekki minna en sjö til átta tíma á sólarhring.
Þetta er samt lærð hegðun því ég er mikil náttugla og dett stundum í mikinn gír seint á kvöldin við að lesa eða skrifa og finnst einbeitingin best frá tíu til tvö. Það hentar ekki vel í þessum heimi sem er ofurseldur ofríki A-fólksins.“