Demókratar birtu í gær greinargerð um málflutning þeirra gegn Trump og segja markmiðið að vernda lýðræði Bandaríkjanna og koma í veg fyrir að forsetar framtíðarinnar hvetji til ofbeldis til að tryggja sér völd.
Trump neitar þessum ásökunum í yfirlýsingu sem hann gaf út í gegnum lögmenn sína og segir réttarhöldin fara gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Trump var ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni þann 13. janúar, sjö dögum áður en hann lét af embætti. Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður fyrir embættisbrot tvisvar sinnum.
Trump er í raun ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar og snýr sérstaklega að hlutverki forsetans í því að æsa fólk upp, sem á endanum braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í nóvember.
Fimm létu lífið í árásinni og þar af einn lögregluþjónn og kona sem var skotin af löggæslumanni.
Demókratar vilja að Trump verði sakfelldur og að öldungadeildin meini honum að bjóða sig aftur fram til embættis.
Í greinargerð Demókrata beintengja þeir sem halda utan um málið gegn forsetanum ítrekaðar ásakanir Trumps um að kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum í nóvember, yfirlýsingar hans um að hann myndi ekki sætta sig við tap og viðleitni hans til að snúa við niðurstöðum kosninganna, við árásina sjálfa á þingið.
Þeir segja að með réttu hefði Trump sætt sig við niðurstöðurnar og viðurkennt ósigur í kosningunum.
„Þess í stað boðaði hann skríl til Washington, æsti þau upp, og miðaði þeim eins og hlaðinni fallbyssu eftir Pennsylvania Avenue,ׅ“ er skrifað í greinargerð Demókrata. Þá segja þeir að þingmenn hafi óttast um líf sín og jafnvel hringt í óðagoti í ættingja sína meðan þeir leituðu skjóls í þinghúsinu.
Þá vísa Demókratar einnig í þann þrýsting sem Trump beitti embættismenn, dómsmálaráðherra sinn og aðra til að snúa við niðurstöðum kosninganna.
Sjá einnig: Tóku Trump upp ef hann segði ósatt frá, sem hann svo gerði
Verjendur forsetans fyrrverandi segja hann hafa verið í rétti með að efast um niðurstöður kosninganna. Vísað er til þess að breytingar hafi verið gerðar á framkvæmd kosninga vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar og halda lögmennirnir fram að ekki séu nægar sannanir til að segja af eða á varðandi kosningasvindl. Því neiti Trump því að hann hafi haft rangt fyrir sér.
Trump og bandamönnum hans hefur þó ítrekað ekki tekist að færa sönnur fyrir máli sínu. Hvorki fyrir dómstólum né annarsstaðar. Rannsóknir og endurtalningar hafa þar að auki ekki gefið í skyn að umfangsmikið kosningasvindl hafi átt sér stað.
Lögmenn Trumps segja að málfrelsi hans tryggi að ekki sé hægt að refsa forsetanum fyrrverandi fyrir að efast um kosningarnar og ekki sé hægt að ákæra hann fyrir embættisbrot þar sem hann sé þegar hættur í embætti.
Saka þeir fulltrúadeild Bandaríkjaþings um að brjóta á rétti Trumps til málfrelsis með því að ákæra hann fyrir embættisbrot.
Þá neita þeir að Trump hafi kvatt stuðningsmenn sína til átaka með því að segja þeim að gefast ekki upp og berjast fyrir ríki þeirra í aðdraganda árásarinnar á þinghúsið. Lögmennirnir segja að Trump hafi verið að tala um að þau ættu að berjast fyrir umbótum á kosningaöryggi.
Afar litlar líkur eru taldar á því að Trump verði sakfelldur í öldungadeildinni. Til þess þurfi minnst sautján þingmenn Repúblikanaflokksins, auk allra þingmanna Demókrataflokksins, að greiða atkvæði með sakfellingu.
Í síðustu viku fór fram atkvæðagreiðsla í öldungadeildinni um að vísa ákærunni frá og voru einungis fimm Repúblikanar sem greiddu atkvæði gegn því.