Minnisblöðin leiða í ljós að persónulegur lögmaður Elísabetar beitti ráðherra þrýstingi til að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi. Í kjölfarið var ákvæði bætt við sem gerði ríkisstjórninni kleift að veita fyrirtækjum þjóðarleiðtoga undanþágur frá nýjum reglum um gegnsæi.
Samkvæmt Guardian var fyrirkomulagið, sem er sagt hafa tekið gildi á 8. áratug síðustu aldar, nýtt til að búa til skúffufyrirtæki til að sveipa eignir og fjárfestingar drottningarinnar leyndarhjúp.
Draumur hagsmunavarðarins
Upp komst um málið við rannsókn Guardian á fornu fyrirbæri í lögum sem kallast „samþykki drottningar“ (e. Queen's consent). Umrædd hefð kveður á um að ráðherrar láti drottninguna vita áður en frumvarp sem kann að hafa áhrif á krúnuna er tekið til atkvæðagreiðslu.
Lögspekingar hafa álitið „samþykki drottningar“ ógegnsæja en skaðlausa tilhögun en Guardian segir minnisblöðin leiða í ljós að um sé að ræða glufu sem gerir drottningunni og lögmönnum hennar kleyft að lesa frumvörp áður en þau eru tekin til umræðu og hafa áhrif á innihald þeirra.
Thomas Andres, sérfræðingur í stjórnskipun við Oxford University, segir minnisblöðin sýna að drottningin hafi áhrifavald sem hagsmunaverðir geta aðeins látið sig dreyma um.