Þegar skilin á milli starfsins og sjálfsmyndar eru óskýr, er ekki óalgengt að ýmsir erfiðleikar komi upp síðar á lífsleiðinni. Í umfjöllun Harvard Business Review eru til dæmis nefndir erfiðleikar eins og þunglyndi, kvíði, kulnun, misnotkun áfengis og lyfja eða einmanaleiki.
Hjá fólki, sem byggir sjálfsmynd sína á starfinu, reynast áföll og breytingar þeim líka oft erfiðari öðrum.
Sem dæmi um breytingar má nefna starfslok eða atvinnumissir. Breytingar á starfi vegna skipuritsbreytinga eða tækniframfara. Að fyrirtæki leggi upp laupana, sameinist öðrum eða taki miklum breytingum.
Þá eru aldursfordómar dæmi um breytingar sem fólk getur upplifað á síðari hluta starfsævinnar. Þessa fordóma getur verið enn erfiðara að mæta, ef starfsframinn hefur of lengi verið stór hluti af sjálfmyndinni.
Sá hópur fólks sem oft festist í sjálfsmynd þar sem starfið er ráðandi hluti, eru stjórnendur og hálauna fólk.
Einkennin: Á þetta við þig?
Til að taka mat á stöðunni, er mælt með því að fólk svari eftirfarandi spurningum:
- Hversu mikið hugsar þú um vinnuna utan vinnutímans? Finnst þér erfitt eða lítt áhugavert að ræða við fólk, ef umræðan snýst ekkert um vinnutengd málefni?
- Fer mesti tíminn þinn í vinnu? Hefur einhver þér nákominn kvartað undan því að þú vinnir of mikið?
- Áttu þér áhugamál utan vinnu sem á engan hátt tengist vinnunni þinni eða vinnufélögum
- Hvaða tilfinning fylgir þeirri tilhugsun að þú hættir í því starfi sem þú ert í? Kemur sú tilhugsun rót á hugann þinn eða líðan?
Að byggja upp sterkari stöðu
Sjálfstæð sjálfsmynd er sterk sjálfsmynd. Og sterk sjálfsmynd gerir okkur betur kleift að takast á við áföll og breytingar sem lífið mun færa.
Staðreyndin er hins vegar sú að fyrir marga stjórnendur og/eða hálauna fólk, sem jafnvel er á hátindi starfstímabilsins síns nú, reynist það erfitt og flókið verkefni að leysa að aðskilja sjálfsmyndina frá starfsframanum. Að leita til fagfólks er því leið sem gæti hentað mörgum.
En hér eru líka nokkur ráð sem gætu hjálpað.
- Frítíminn. Taktu ákvörðun um að auka frítíma með því að úthluta fleiri verkefnum frá þér í vinnunni þannig að þú getir átt aðeins meiri frítíma. Mjög oft þýðir þetta að þú þarft að úthluta verkefnum sem þú hefur fyrst og fremst viljað sinna sjálf/ur.
- Það sem þú gerir í frítímanum. Þennan viðbótarfrítíma nýtir þú til að sinna nýju áhugamáli. Einfalt dæmi gæti verið að stunda meiri hreyfingu eða að prófa eitthvað sem þig hefur lengi langað til að gera. Til að halda þetta út, er þó mælt með því að fólk ætli sér ekki of mikið. Frekar að taka lítil skref og byrja smátt.
- Endurbyggðu tengslanetið. Hvort sem það er með vinum eða vandamönnum er mikilvægt að endurbyggja tengslanetið og virkja samskipti, samveru og tengsl við fólk sem þú þekkir annars staðar frá en í gegnum vinnuna.
- Endurmat: Gildi og lífsviðhorf. Hvað er það sem skiptir þig mestu máli þegar á reynir? Hverjir skipta þig mestu máli? Hver eru gildin þín og hvert er lífsviðhorfið þitt yfir höfuð? Ertu að lifa lífinu í samræmi við þessi gildi eða þetta viðhorf? Hverju þarftu að breyta
- Endurmat: Þínir hæfileikar. Þá er ágætt að fara yfir það í huganum í hverju hæfileikarnir okkar liggja helst. Í huganum getum við mátað þessa styrkleika við ólík störf sem ættu vel við okkur. Með því að gera þetta, erum við að hjálpa huganum að aðskilja sjálfsmyndina frá því að vera of bundin núverandi stöðugildi.