Meðal þeirra er Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, en eignir hans eru taldar hafa dregist saman um 700 milljónir dala á meðan hann sat í Hvíta húsinu. Þær eru nú sagðar nema um 2,3 milljörðum dala.
Tapið má að stórum hluta rekja til Covid-19 en aðgerðir vegna faraldursins hafa leitt til umtalsverðs tekjutaps Trump-veldisins, sem samanstendur meðal annars af skrifstofubyggingum, hótelum og afþreyingarrekstri.
Bloomberg tók sig til á dögunum og reiknaði út auð Trumps áður en hann varð forseti og eftir að hann yfirgaf Hvíta húsið. Samkvæmt þeim telja fasteignir í útleigu um þrjá fjórðuhluta umsvifa Trump-veldisins en virði skrifstofubygginga hefur lækkað verulega í faraldrinum, í kjölfar þess að margir neyddust til eða völdu að vinna heiman frá.
Miðillinn áætlar að virði þessara eigna Trump hafi dregist saman um allt að 26 prósent.
Trump á einnig og rekur hótel, auk þess að leigja hótelum nafn sitt. Þá á hann nítján golfvelli en ferðatakmarkanir hafa eins og kunnugt er sett strik í reikninginn í ferðamannaiðnaðinum.
Þá var skammt högga á milli í kjölfar óeirðanna við og í bandaríska þinghúsinu í Washington D.C. í janúar síðastliðnum en þá ákvað PGA að rifta samningi um að halda meistarmót sitt á golfvelli Trump í New Jersey, auk þess sem Deutsche Bank ákvað að slíta tengslum við Trump.
Trump er til rannsóknar víðsvegar um Bandaríkin, bæði í tengslum við viðskiptaveldi sitt og athafnir sínar í embætti. BBC getur þess þó að hann gæti hagnast myndarlega á því að gefa út æviminningar sínar og þá sé gróðavon í stofnun fjöl- og/eða samfélagsmiðla.