Newman flutti lagið Embers, sem hann samdi sjálfur og flutti á úrslitakvöldinu. Svo fór að hann hafnaði í 26. og neðsta sæti keppninnar með engin stig, hvorki frá dómnefndum né símakosningu áhorfenda.
Þegar kynnar kvöldsins tilkynntu að Bretland fengi engin stig í keppninni í ár fagnaði þó salurinn Newman vel og innilega, sem sjálfur virtist taka tilkynningunni af æðruleysi.
I know this is gutting, but the way the whole arena rallied around James Newman was a really touching #Eurovision pic.twitter.com/9U6cZDhgxT
— Scott Bryan (@scottygb) May 22, 2021
Hann segist þakklátur fyrir keppnina, enda hafi hann lært mikið af öllum þeim sem fylgdu honum í ferlinu og komu að keppninni sjálfri. Þar sé fagfólk á ferð sem sé heiður að vinna með. „Þetta er besta fólkið í bransanum og ég fékk tækifæri til þess að vinna með þeim og deila þessari ótrúlegu reynslu sem ég er svo heppinn að hafa fengið tækifæri til þess að upplifa.“
Newman er reyndur lagahöfundur og hefur samið fyrir margar stórar poppstjörnur. Hefur hann meðal annars samið tónlist með Calvin Harris og bróður sínum John Newman.
„Ég vil þakka aðdáendunum sem studdu mig í gegnum allt ferlið, þið gerðuð það þess virði. Þegar allt kemur til alls eruð þið fólkið sem ég geri þetta fyrir.“
Hér má sjá flutning Newman frá úrslitakvöldinu.