Enn hefur ekki verið borið kennsl á mennina tvo og lögregla hefur ekki upplýst um það hvernig dauða þeirra bar að. Lík þeirra fundust í gærmorgun en í dag eru 24 ár síðan Versace var myrtur.
Tilkynning um líkfundinn á Villa Casa Casuarina Hotel barst lögreglu í gær klukkan 13:20 að staðartíma í gær. Eins og áður segir er hótelið í húsinu sem áður var heimili mógúlsins. Ræstitæknar hótelsins komu að líkunum inni á herberginu. People greinir frá þessu.
Versace keypti húsið árið 1992 og fór í framkvæmdir á því sem kostuðu meira en 33 milljónir Bandaríkjadala, eða um 4 milljarða íslenskra króna. Fjölskylda hans seldi villuna árið 2000.
Morðið á Versace vakti mikla athygli á sínum tíma enda var hann vel þekktur í tískuheiminum. Hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt þann 15. júlí 1997 af raðmorðingjanum Andrew Cunanan – en hann hafði þegar myrt minnst fjóra í morðæði á leið sinni frá Minnesota til Flórída.
Cunanan, sem var 27 ára gamall, féll fyrir eigin hendi aðeins nokkrum dögum eftir að hann myrti Versace. Enn þann dag í dag er ekki vitað hvers vegna Cunanan beindi spjótum sínum að Versace.