Spike Lee, leikstjóra og forseta dómnefndar Cannes, varð á í messunni þegar hann tilkynnti Titane sem sigurvegara Gullpálmans í byrjun verðlaunaathafnarinnar í Cannes í kvöld. Venjan er að veita Gullpálmann í lok athafnarinnar.

Kvikmyndhátíðinni í Cannes lauk í kvöld eftir tólf daga hátíðarhöld. Faraldur Covid-19 setti sinn stimpil á hátíðina eins og svo margt annað. Færri gestir en venjulega komust að og var þeim öllum gert að bera andlitsgrímur í kvikmyndahúsunum. Hátíðinni í fyrra var aflýst sökum faraldursins og létu gestir takmarkanir því ekki spilla gleðinni.
Grand Prix verðlaununum var deilt meðal írönsku dramamyndarinnar A Hero og hinnar finnsku Apartment No. 6. Grand Prix verðlaunin eru í raun verðlaun fyrir annað sætið á hátíðinni.
Leos Carax hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn en hann leikstýrði opnunarmynd hátíðarinnar, söngleikjamyndinni Annette.
Renate Reinsve var valin besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í The Worst Person in the World. Caleb Landry Jones var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir að leika fjöldamorðingja í Nitram, sannsögulegri mynd um fjöldamorðið í Ástralíu árið 1996.
Murina, mynd króatíska leikstjórans Antoneta Alamat Kusijanović, hlaut Gullmyndavélina, verðlaun fyrir bestu frumraun leikstjóra. Kusijanović gat ekki veitt verðlaununum viðtöku þar sem hún eignaðist barn í gær.