Herdís segir þessar tölur segja okkur allt um það, hversu mikilvægt það er að sinna mannauðsmálum mjög vel. „Með þennan mikla kostnað er eins gott að huga vel að því hvernig við getum fengið sem best út úr mannauðnum og þessum kostnaði, þó þannig að við séum á sama tíma að huga að velsæld starfsfólks.“
Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um helstu áherslur í mannauðsmálum og niðurstöður nýrrar könnunar á vinnumarkaði sem sýna meðal annars nýja samræmda mælikvarða.
Engin skömm að því að tala um líðan
Að sögn Herdísar Pálu er líklegt að andleg heilsa verði fyrirferðarmikil í mannauðsmálum næstu misserin. Mörg fyrirtæki hafa reyndar lengi hugað vel að heilsu síns fólks. Til dæmis boðið upp á heilsufarsmælingar, góð mötuneyti, fyrirlestra um svefn og fleira.
Þetta verður mikilvægt til að að sporna við kulnunartilfellum en í kjölfar Covid má einnig búast við að enn betur þurfi að huga að þessum málum.
Að ræða andlega heilsu er þó áskorun út af fyrir sig.
Á vinnustöðum þurfum við að þora að tala um hvernig okkur líður án þess að því fylgi einhver skömm.
Á sama tíma þurfa stjórnendur að læra betur að þekkja fyrstu einkenni og hver geta verið fyrstu viðbrögð, ef bera fer á því að andleg heilsa einhverra starfsmanna sé kannski ekki nógu góð,“
segir Herdís Pála.
Þá telur hún líklegt að vinnustaðir fari að gera meira í því að skapa góða upplifun og stemningu meðal starfsfólks þannig að starfsfólki upplifi enn sterkar, og vilji einnig, tilheyra vinnustaðnum.
„Það eru ákveðin viðbrögð við því að almennt er fólk farið að stoppa styttra á hverjum vinnustað en líka eykst þörfin fyrir þetta samhliða aukinni fjarvinnu, að á vinnustaðnum upplifi starfsmaður að hann tilheyri góðri heild með skýran tilgang, þannig að þráðurinn á milli slitni ekki þó unnið sé í fjarvinnu.“
Stjórnendur þurfa þjálfun
Herdís segir jákvætt að sjá í niðurstöðum könnunarinnar að það er fjölgun í verkefnum tengdum sjálfvirknivæðingu. Þau verkefni virðast ekki endilega hafa verið að leiða til fækkunar starfsfólks.
„Þannig að fyrirtækin eru að nota tæknina frábærlega til að auka virði, en ekki bara til að spara kostnað.“
Í þessu samhengi þarf samt að minna á vaxandi mikilvægi þess að starfsfólk fái endur- og símenntun. Þjálfa þurfi fólk til að búa það undir framtíðina, aukna tækni og breytingu á því hvernig við vinnum.
Þjálfun sem þessi, eigi þó líka við um stjórnendur.
„Stjórnendur þurfa sérstaka þjálfun í því sem við köllum soft skills, sem eru þá þættir eins og hlustun, tilfinningagreind, samskiptafærni og fleira.“
Þá segir Herdís Pála stjórnendur þurfa þjálfun í breyttum stjórnunaraðferðum samhliða aukinni fjarvinnu og breyttu vinnulagi.
Það getur kallað á hugrekki hjá mörgum stjórnendum að þora að fara að beita nýjum stjórnunaraðferðum en það er alveg ljóst að eftir því sem vinnulag og vinnuumhverfi breytist að þá er það ekki vænlegt til mikils árangurs að halda áfram að beita sömu stjórnunaraðferðunum og lengi hefur verið gert, jafnvel aðferðum sem rekja má til annarrar iðnbyltingar, nú þegar við erum að lifa fjórðu iðnbyltinguna.“
Sem dæmi nefnir Herdís Pála hvernig við ráðum og tökum á móti nýju fólki, hvernig við metum frammistöðu, hvernig og hversu oft við veitum endurgjöf, hvetjum og svo framvegis.

„Í stærra samhengi verð ég líka að nefna, vegna niðurstaðna sem komu fram í nýlegri rannsókn sem ég gerði með dr. Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, við skrif okkar á bókinni Völundarhús tækifæra, að fjölbreytni ráðningarsambanda er að aukast, sem mun breyta heilmiklu varðandi mannauðsmál vinnustaða. Þetta mun kalla á breytingar í stefnum vinnustaða þegar kemur að mannauðsstjórnun,“ segir Herdís Pála.
Er starfsmannavelta að aukast?
Eins og fram kom í umfjöllun Atvinnulífsins í gær er mikill munur á starfsmannaveltu í einkageiranum, til samanburðar við opinbera geirann.
Í einkageiranum var starfsmannaveltan ríflega 13% en í opinbera geiranum 6%.
Þennan mun er ekki aðeins hægt að skrifa á heimsfaraldurinn því árið 2019 mældist starfsmannavelta í einkageiranum 17% en 6% í opinbera geiranum.
Að mati Herdísar Pálu eru því ýmsar vísbendingar um að starfsmannavelta sé að aukast í einkageiranum og verði jafnvel enn meiri árið 2021 en var í fyrra.
Fólk sé einfaldlega að færa sig til í starfi og leitar þá frekar í vinnustaði, störf og verkefni sem bjóða upp á sveigjanleika og þann lífsstíl sem fólk vill hafa.
En eru vinnustaðir vel undirbúnir undir þær breytingar sem framundan eru?
„Ég held að það séu margir vinnustaðir mjög vel undirbúnir og aðrir sem eru bara alls ekki nægjanlega vel undirbúnir, því miður,“ segir Herdís Pála.
Hún mælir með því að vinnustaðir byrji að undirbúa sig strax undir breytta tíma. Því framtíðin byrji strax á morgun.
„Það er aldrei laus tími í undirbúning og pælingar, það þarf að forgangsraða tíma í það, hreinlega að taka tíma í það.“
Þá mælir Herdís Pála með því að vinnustaðir fái utanaðkomandi aðstoð.
„Reynsla fólks til að undirbúa þessar breytingar er kannski mismikil eða ekki á því sviði sem helst þarf á að halda,“ segir Herdís Pála og bendir því á að oft sé gott fyrir vinnustaði að fá tímabundna utanaðkomandi aðstoð frá aðilum sem hafa meiri þekkingu eða reynslu í þessu samhengi.
„Fá kannski tímabundið inn einhverja sem hafa meiri þekkingu og/eða gagnlega reynslu í þessu samhengi annars staðar frá eða geta komið inn með ferskt sjónarhorn sem er ekki litað af því hvernig hlutirnir hafa alltaf verið gerðir, vinatengslum á vinnustaðnum eða ríkjandi vinnustaðarmenningu.“