Slysið átti sér stað á Ameríkuströndinni í bænum Arona á suðvestanverðri Tenerife-eyju um klukkan fjögur síðdegis á sunnudag. Toppur pálmatrés hrundi þá skyndilega á fimm íslenskar konur á fimmtugsaldri sem sátu við veitingastað. Þær voru í vinkonuferð í sólinni.
Tvær konur slösuðust mest og gengust báðar undir aðgerð. Þær eru enn á gjörgæsludeild að sögn eiginmanns annarrar konunar sem baðst undan því að koma undir nafni.
Spítalinn virðist fyrsta flokks
Vísir ræddi við eina konuna í gær sem sagði að hvasst hafi verið á sunnudaginn en svo virtist sem að ekkert hafi verið hugsað um trén sem standa við göngugötu. Hún taldi að toppurinn sem féll hafi vegið mörg hundruð kíló og að hann hafi hrunið úr fimm til sex metra hæð.
Eiginmaðurinn flaug utan í gær ásamt eiginmanni hinnar konunnar sem er slösuð á gjörgæslu. Honum sýnist spítalinn fyrsta flokks hvar konurnar liggja og eiginmennirnir fá að hitta þær í stuttan tíma á hverjum degi.
Þar geti þau rætt saman en konurnar séu við mikla lyfjagjöf eftir slysið og aðgerðina sem fylgdi. Helst sé um að ræða áverka á brjósti og baki, rifbein og annað slíkt.
Mikil umræða um slysið á Tenerife
Aðspurður hvort þau séu bjartsýn á bata segist eiginmaðurinn auðvitað verða að vona það besta. Staðan sé þó enn krítísk. Þó konurnar séu ekki í lífshættu liggi þær enn á gjörgæslu mikið slasaðar. Hann sér fram á að vera ytra næstu vikurnar og finnur fyrir hlýhug að heiman.
Þeim hafi borist margar kveðjur og margir haft samband.
Aðspurður segir hann málið hafa verið mikið í fréttum ytra og skapað mikla umræðu. Enda sé þetta ekki í fyrsta skipti sem svona slys gerist.
Hinar þrjár konurnar slösuðust minna og eru á leiðinni heim til Íslands.