Samkvæmt heimildum Innherja voru þannig viðskipti með bréf í Controlant upp á hundruð milljóna króna fyrr í þessari viku á genginu 15.000 krónur á hlut – hlutafé fyrirtækisins var rúmir 6 milljónir hluta að nafnvirði um miðjan síðasta mánuð – sem þýðir að félagið var því metið á meira en 90 milljarða króna.
Á síðustu tveimur mánuðum hefur gengið í stærri viðskiptum með bréf Controlant hækkað um liðlega 20 prósent. Þannig greindi VÍS, sem fjárfesti fyrst í Controlant í fyrra, frá því á uppgjörsfundi í lok október á þessu ári að félagið hefði hækkað verulega verðmat sitt á Controlant og vísaði þá til nýlegra viðskipta með bréf í félaginu á genginu 12.500 krónur á hlut.
Síðustu stóru einstöku viðskiptin með bréf í Controlant voru hins vegar þegar sjóðurinn Frumtak I, sem fjárfesti fyrst í fyrirtækinu 2011, seldi í nóvember á liðnu ári rúmlega 11 prósenta hlut sinn fyrir um 2 milljarða. Fór sú sala fram á genginu 3.200 krónur á hlut og hefur það því margfaldast frá þeim tíma.
Vöxtur Controlant, sem er að miklum meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur verið ævintýralegur en fyrirtækið þróaði hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast með lyfjum og matvælum í flutningi svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum.
Fram kom á hluthafafundi Controlant í júní síðastliðnum að gert væri ráð fyrir tekjurnar á þessu ári nífaldist frá 2020 og verði samtals 63 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 7,9 milljarða króna. Á næsta ári er búist við því að tekjurnar vaxi áfram og verði 125 milljónir dala, jafnvirði um 15,8 milljarða króna.
Tekjuvöxturinn byggir að langmestu á samningum við núverandi viðskiptavini en auk viðskipta við Pfizer, sem hefur staðið undir stærstum hluta teknanna, hefur Controlant meðal annars einnig gert samninga við lyfjafyrirtækin Merck, Roche og GlaxoSmithKline.
![](https://www.visir.is/i/5386438E09492E88570B4540536A2DCEA78ED319AD0A4CC942FE2E02B58CD0CB_713x0.jpg)
Miðað við núverandi markaðsvirði Controlant er félagið verðmætara heldur en meirihluti fyrirtækja í Kauphöllinni. Aðeins Marel, Arion banki, Íslandsbanki, Síldarvinnslan, Brim, Kvika og Síminn eru með hærra markaðsvirði af skráðu félögunum.
Í dag starfa 320 manns hjá fyrirtækinu, að langstærstum hluta á Íslandi, en samkvæmt áætlunum verða þeir orðnir um 350 talsins í árslok.
Í árslok 2020 var sjóðurinn Frumtak II stærsti eigandi Controlant með 12,9 prósenta hlut en aðrir helstu hluthafar félagsins eru meðal annars fjárfestingafélagið Stormtré, sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar, eignarhaldsfélagið Líra, sem er í eigu hjónanna Halldóru Baldvinsdóttur og Valdimars Bergstað, og félagið Kaskur, sem er í eigu Inga Guðjónssonar. Þá fer Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, með um 3 prósenta hlut.
![](https://www.visir.is/i/0AD20D461A4446C445BAFF28B8348D8BAA9903304C7F3001A183A4576239BB43_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.