Jean Castex forsætisráðherra Frakklands reiknar með að afbrigðið verði orðið það algengasta snemma á næsta ári. Mark Rutte forsætisráðherra Holland hefur sagt það sama um ómíkron afbrigðið.
Frakkar hertu enn á sóttvarnaskilyrðum fyrir fólk sem kemur frá Bretlandi. Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að Bretland hafi enn sem komið er farið verst út úr yfirstandandi bylgju faraldursins þar sem yfir fimmtán þúsund manns greindust smitaðir í gær.
Frakkar hafa sömuleiðis stytt tímann sem þarf að líða á milli þess sem fólk fær annan og þriðja skammt Covid-19 bóluefnisins og fólk þarf þá að vera fullbólusett til að fá inngöngu á veitingastaði og í almenningssamgöngur ef þeir ætla að fara langa leið.
Víða um Evrópu hafa stjórnvöld hert á sóttvarnaaðgerðum eins og í Þýskalandi, Írlandi, Hollandi og Danmörku, þar sem um tólf þúsund manns greindust í fyrradag. Nú hafa um 89 milljónir manna í Evrópu smitast og ein og hálf milljón látist af Covid-19 samkvæmt nýjustu tölum Evrópusambandsins.
Ítalía, Grikkland og Portúgal kynntu sömuleiðis hertar takmarkanir fyrr í vikunni og munu allir ferðamenn frá öðrum Evrópuríkjum þurfa að sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf við komuna til landanna þriggja. Það á líka við um þá sem hafa verið bólusettir.