Candie Frazier og aðrir umræðurrýnar TikTok hafa unnið við það í allt að tólf tíma á dag að fara yfir myndbönd á samfélagsmiðlinum og fjarlægja þau ef þau reynast of gróf. Í lögsókn Frazier segir að hún hafi meðal annars þurft að horfa á myndbönd af fjöldamorðum í Mjanmar, skotárásum, barnaníði og dýraníði.
Í lögsókn hennar, sem beinist gegn TikTok og ByteDance, móðurfyrirtækis samfélagsmiðilsins, segir að Frazier hafi hlotið mikinn skaða af þessum störfum og þá meðal annars áfallastreituröskun. Hún segist einnig þjást af þunglyndi og kvíða. Þar að auki segist hún eiga erfitt með svefn vegna martraða.
Hún vann hjá TikTok sem verktaki á vegum fyrirtækisins Telus International en segir TikTok hafa ráðið öllu um starf hennar.
Samkvæmt frétt Washinton Post vonast Frazier til þess að aðrir umræðurýnar TikTok gangi til liðs við sig.
TikTok hefur fleiri en einn milljarð notenda á heimsvísu og varð í ár vinsælastavefsíða heims.
Sjá einnig: TikTok vinsælasta vefsíða ársins
Sambærilegum lögsóknum hefur verið beitt gegn öðrum samfélagsmiðlum. Meta, áður Facebook, greiddi til að mynda 52 milljónir dala til þúsunda umræðurýna í fyrra vegna lögsóknar sem sneri að því að þau hefðu ekki verið varin gegn efni sem þau neyddust til að horfa á.
Frazier segir í lögsókn sinni að hún og aðrir umræðurýnar hafi þurft að horfa á þrjú til tíu myndbönd samtímis og ný myndbönd hafi birst þeim á um 25 sekúndna fresti. Þeim hafi eingöngu verið leyft að taka klukkutíma í hádegismat og tvær fimmtán mínútna pásur þar að auki á tólf tíma vöktum.
Business Insider segir að yfirmenn umræðurýna fylgist með þeim í gegnum upptökur og passi að þau taki sér ekki frekari pásur en þeim sé leyfilegt. Dæmi séu um að fólk hafi verið meinuð laun vegna slíkra pása.