Lífið

Byltingar­kennd ný ís­lensk tækni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ný byltingarkennd íslensk tækni vekur athygli.
Ný byltingarkennd íslensk tækni vekur athygli.

Mikið hefur verið rætt um höfuðáverka íþróttafólks að undanförnu en nýlegar íslenskar rannsóknir hafa sýnt að afleiðingar þeirra geta bæði verið meira langvarandi og mun alvarlegri en áður var talið.

Og þetta á ekki bara við um íþróttafólk. Við getum öll lent í höfuðáverkum og höfuðáverkum fylgja yfirleitt hálsáverkar eða öfugt. En hálsáverkar eru á meðal algengustu stoðkerfisvandamála sem almenningur á Íslandi glímir við í dag og jafnframt ein helsta ástæða þess að fólk sækir sér þjónustu sjúkraþjálfara.

Frosti Logason leit við hjá nýrri og hátæknilegri hálsgreiningar og höfuðáverka miðstöð Heilsuverndar í Urðarhvarfi í Kópavogi á dögunum. Miðstöðin samanstendur af Kim Endurhæfingu, Heilaheilsu og nýsköpunarfyrirtækinu Neckcare en við heimsóttum stöðina nýverið og hittum þar fyrir meðal annara Jón Magnús Kristjánsson en margir muna eftir honum af bráðamóttöku Landspítalans þar sem hann var lengi yfirlæknir en nú ber hann titilinn framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd.

Erfitt í greiningu

„Þessi miðstöð er mjög mikilvæg fyrir þá sem lenda í höfuð og hálsáverkum. Það er mjög erfitt í greiningu að finna nákvæmlega út umfang áverkans í byrjun. Það er stundum sem ekkert sést á röntgenmynd eða jafnvel tölvusneiðmynd í fyrstu rannsókn. Samt sem áður er fólk með einkenni sem hefur verulega áhrif á þeirra líf,“ segir Jón.

Eitt helsta vopnið sem háls og höfuðáverka miðstöðin státar af er byltingarkennd ný íslensk tækni sem þróuð hefur verið af nýsköpunarfyrirtækinu Neckcare en um er að ræða hátæknibúnað sem ætlað er að meta stoðkerfisvanda í hálsi sem nýtist jafnt til greiningar og endurhæfingar. Tæknin er einkaleyfisvernduð og gæti því ef allt gengur eftir orðið næsta stóra útflutningsvara Íslands en Neckcare hefur tryggt sér einkaleyfi á vörunni í þremur heimsálfum í Kanada, Evrópu og Ástralíu. Þorsteinn Geirsson er framkvæmdastjóri Neckcare á Íslandi.

„Það hafa ekki verið til nein greiningartól til að varpa ljósi á hálsskaða,“ segir Þorsteinn sem sýndi Frosta höfuðbúnað sem ætlaður er til að greina vandamálið ítarlega.

„Göngunum úr tækinu er varpað upp í skýið og þar tekur hugbúnaður okkar við gögnunum og les úr þeim. Svo fá sjúkraþjálfarar eða læknar skýrslu sem þeir geta nýtt sér til annars vegar að greina vandann og síðan til að styðja við meðferðaferli þeirra sem við eiga, sjúklingana.“

Missti fótinn nítján ára

Kim De Roy er helsti sjúkraþjálfari miðstöðvarinnar sem kom fyrst hingað til lands frá Belgíu árið 2001 eftir að hafa 19 ára gamall misst fót í óheppilegu vinnuslysi. En hann kynntist Íslandi í gegnum stoðtækjafyrirtækið Össur þar sem hann fékk sjálfur sinn fyrsta gervifót sem hann hefur meðal annars notað til að hlaupa heilu maraþon hlaupin en Kim setti einmitt heimsmet í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2014 þegar hann náði besta tíma sögunnar í maraþonhlaupi aflimaðra. Kim varð síðar yfirmaður rannsókna og þróunar hjá Össuri en nú gegnir hann stöðu framkvæmdastjóra hjá Kim endurhæfingu. Frosti fékk Kim til að sýna áhorfendum hina byltingarkenndu Neckcare græju og fékk hann að sjá hvernig hálsáverkagreining fer raunverulega fram.

Innan háls- og höfuðáverkamiðstöðvar vinnur þverfaglegt sérfræðingateymi lækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og næringarfræðinga sem vinna öll að því marki að hámarka árangur og getu þeirra sem treysta á sjúkraþjálfun og endurhæfingu til að ná bata eftir slys eða önnur áföll.

„Þetta er það fyrsta sinna tegundar hér á Íslandi og það fyrsta í heiminum sem er nákvæmlega með þessu sniði. Víðast hvar í heiminum eru svona miðstöðvar fyrir þá sem hafa lent í höfuð og hálsáverkum vegna þess að þetta krefst sérhæfðrar meðferðar. Við áætlum að það sé allt að fimm prósent Íslendinga eða allt að fimmtán þúsund einstaklingar sem einvertímann um ævina þurfi á þessari þjónustu að halda,“ segir Jón.

Þorsteinn Geirsson segir að framtíðin sé bæði björt og spennandi hjá Neckare en nú upp úr áramótum stendur til að kynna tæknina fyrir bandaríska hernum og stórum fyrirtækjum í bandarískri heilbrigðisþjónustu auk þess sem að ný starfstöð fyrirtækisins verður opnuð í Norður Karólínu. Neckcare stefnir sem sagt að því að verða stórt alþjóðlegt fyrirtæki sem mun bjóða upp á góð atvinnutækifæri fyrir unga íslenska vísindamenn en hjá fyrirtækinu starfar mikið af vel menntuðu fólki eins og verkfræðingum, hugbúnaðarfólki, sjúkraþjálfurum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.