Meirihluti þeirra 1008 þingmanna sem greiddu atkvæði skiluðu inn auðum seðli í gær og var það aftur staðan í dag. Til að ná kjöri sem forseti þarf atkvæði frá tveimur þriðju þingmanna
Að því er kemur fram í frétt Reuters um málið er Mario Draghi, forsætisráðherra landsins, enn líklegastur til að verða fyrir valinu. Margir óttast þó að ef Draghi færir sig um set muni samsteypustjórn landsins falla og knýja fram nýjar kosningar í landinu.
Flokkarnir á mið-hægri væng ítalskra stjórnmála lögðu í dag til þrjá einstaklinga sem gætu tekið við keflinu en flokkarnir á mið-vinstri vængnum féllust ekki á það. Óskað hefur verið eftir viðræðum milli flokkanna á morgun vegna málsins.
Þó er talið ólíklegt að hægt verði að leysa vandann á morgun.
Forseti Ítalíu er skipaður til sjö ára og hefur helst það verkefni að leysa deilumál þegar upp koma stjórnmálakreppur í landinu. Að öðru leyti er embættið tiltölulega valdalítið.