
Vilhelm sigldi með aflann til Færeyja þar sem bræðslurnar á Íslandi hafa ekki undan í mokveiðinni þessa dagana en loðnan veiddist á miðunum austur af Langanesi.
„Þessi systurskip eru þau burðarmestu í flotanum, metin falla með öðrum orðum hratt á þessari stærstu loðnuvertíð um langt árabil. Og þetta er ekki aðeins Íslandsmet í lönduðum loðnuafla, einnig heimsmet,“ segir í frétt á heimasíðu Samherja.

Fram kemur að það hafi tekið rúmlega tuttugu klukkustundir að dæla úr Vilhelm Þorsteinssyni í Fuglafirði. Haft er eftir Guðmundi Þ. Jónssyni skipstjóra að Færeyingarnir hafi verið afskaplega ánægðir með gæði aflans og fituinnihald.
„Við leystum landfestar í Fuglafirði á sjöunda tímanum í morgun og nú er bara að sigla á miðin,“ segir Guðmundur skipstjóri.

Börkur heldur þó stöðu sinni sem aflahæsta skipið á loðnuvertíðinni til þessa, með samtals 18.799 tonn, samkvæmt tölum Fiskistofu í dag. Í öðru sæti er Venus NS með 15.417 tonn og Heimaey VE er í þriðja sæti með 15.316 tonn. Fjögur skip koma þar á eftir; Víkingur AK, Jón Kjartansson SU, Aðasteinn Jónsson SU og Beitir NK, með afla á bilinu 14.300 til 14.500 tonn.
Heildarveiði íslensku loðnuskipanna á vertíðinni er komin í 253 þúsund tonn, sem eru 38 prósent af 662 þúsund tonna kvóta Íslendinga.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: