Í byrjun árs fór Alexander Freyr, fjögurra ára gamall strákur, í hálskirtlatöku en tíu dögum síðar var ekki allt með feldu og var hann farinn að hósta blóði.
Það sama hafði gerst við eldri bróður hans eftir hálskirtlatöku, sem varð þá að fara í aðgerð til að stöðva blæðinguna, og var móðir hans því fljót að leita með hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Send heim og sagt að hafa engar áhyggjur
Hún segir lækninn þó hafa náð að skoða Alexander illa, sem hafi ekki viljað opna munninn fyrir hann.

„Og hann sagði þá bara að því það væri komið svo langt síðan, 10 dagar frá aðgerðinni, að þetta væri sennilega bara lítill flipi sem hafi losnað og blætt í kjölfarið og væri ekkert stórvægilegt og ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur,“ segir Haffý Magnúsdóttir, móðir Alexanders.
Þau hafi því verið send aftur heim og læknirinn sagt að Alexander mætti meira að segja mæta í leikskólann daginn eftir ef hann væri hress.
„Sama dag eftir leikskóla um fimmleytið að þá byrjar hann að æla blóði og komu hérna allavega þrjár stórar gusur í klósettið,“ segir Haffý.

Segir litlu hafa munað
Hún hafi þá hringt beint á sjúkrabíl. Ástandið á Alexander fór síðan versnandi í bílnum þar sem hann hélt áfram að æla blóði og var farið að líða yfir hann, líklega vegna blóðmissis. Þegar annar sjúkraflutningamannanna hafi séð það hafi hann beðið bílstjórann að gefa í.
Þau náðu svo í bæinn í tæka tíð þar sem Alexander var sendur beint í bráðaaðgerð þar sem brennt var fyrir sárið.

„Við náum því sem betur fer en það mátti sennilega ekki miklu muna að það hefði endað á hinn veginn,“ segir Haffý. Læknirinn á Barnaspítalanum hafi varla trúað því að læknirinn hafi ekki sent Alexander beint í bæinn í aðgerð þegar hann hafi heyrt að hann væri að hósta blóði um nóttina.
Hún segir það altalað í bænum hve léleg þjónustan sé á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og sjálf getur hún ekki hugsað sér að leita þangað aftur.
„Nei, ég fer ekki, það hvarflar ekki að mér eftir þetta að fara með hvorki mig eða börnin mín til lækna hérna. Ég fer til Reykjavíkur,“ segir hún.