„Við byrjuðum bara á því að aðstoða bíla sem voru í vandræðum í vatninu hérna svo aðstoðuðum við Vegagerðina aðeins við að opna niðurföllin, þeir komu hérna til að grafa en þeir voru bara ekki með nógu stór stígvél strákarnir þannig við redduðum þeim bara aðeins,“ segir Magnús.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í tilkynningu skömmu eftir klukkan ellefu í kvöld að ökumenn hafi verið að lenda í vandræðum víða. Fráveitukerfin hafi ekki haft undan og því ljóst að ástandið muni vara áfram.
Gunnar og Magnús vara fólk á litlum fólksbílum við að aka á vatnsmiklum götum, líkt og Miklubrautinni.
„Þetta getur drekkt bílnum þínum mjög auðveldlega ef þú ferð ekki varlega út í þetta, það er búið að gerast hérna á nokkrum stöðum,“ segir Gunnar og tekur Magnús undir.
„Fólk þarf að fara varlega, fara mjög hægt og vera ekki að fara í gegnum þessa polla á minni bílum, það bara sýnir sig,“ segir Magnús.
Þeir vilja þó ekki meina að um sérstaklega erfitt verkefni sé að ræða, þó þeir væru sjálfir standandi í hálfgerðu stöðuvatni á Miklubrautinni.
„Þetta er bara verkefni. Maður fer í þetta eins og allt annað,“ segir Gunnar. Þá væri réttur útbúnaður lykilatriði, en sjálfir voru þeir í galla sem líktist kafarabúningi.
„Þetta er bara þurrgalli hugsaður til að blotna ekki í gegn, þannig að við getum verið hérna úti í rigningunni aðeins lengur en þú,“ segir Magnús í léttu bragði.