Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar þeirra í Magdeburg unnu góðan sex marka sigur gegn Savehof í toppslag C-riðils. Lokatölur urðu 31-25 eftir að heimamenn í Magdeburg höfðu leitt með fjórum mörkum í hálfleik.
Ómar Ingi og Gísli Þorgeir skoruðu tvö mörk hvor fyrir Magdeburg, en liðið er nú með 17 stig á toppi riðilsins, fimm stigum meira en Savehof sem situr í öðru sæti. Aðeins ein umferð er eftir í riðlinum og sigur kvöldsins þýðir það að Magdeburg er búið að tryggja sér sigur í riðlinum.
Unser GRUPPENSIEG in der EHF European League ist sicher!🔥
— SC Magdeburg (@SCMagdeburg) March 1, 2022
Wir gewinnen 31:25 gegen IK Sävehof.
Spielbericht 👉 https://t.co/9aBkr8CPjZ
Tickets für Sonntag 👉 https://t.co/oXFtoyFOte#scmhuja #ehfel
📸 Eroll Popova pic.twitter.com/2tPR6j1pvL
Þá þurftu Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í PAUC Aix að sætta sig við grátlegt eins marks tap er liðið heimsótti Gorenje Velenje í C-riðli, 33-32.
Kristján og félagar leiddu með einu marki þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka, en heimamenn í Gorenje skoruðu þrjú af seinustu fjórum mörkum leiksins og tryggðu sér þar með sigurinn.
Kristján var markahæsti maður vallarins með níu mörk fyrir Aix, en liðið situr enn á botni riðilsins með aðeins eitt stig.
Í B-riðli gerðu Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo óvænt jafntefli gegn Cocks sem situr á botni riðilsins. Lokatölur urðu 29-29, en þetta var fyrsta stig Cocks í riðlinum. Bjarki og félagar sitja í fjórða sæti með tíu stig, en liðið er án sigurs í Evrópudeildinni í seinustu fjórum leikjum.
Að lokum unnu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG nauman eins marks sigur gegn Benfica í toppslag B-riðils, 39-38.
Viktor varði sex af þeim 22 skotum sem hann fékk á sig í marki GOG, en liðið situr nú eitt á toppi riðilsins með 15 stig, tveimur stigum meira en Benfica sem situr í öðru sæti.