Samkvæmt gögnum Hvíta hússins sem afhent voru þinginu, ræddi Trump ekki við neinn í síma milli 11:17 og 18:54 þann 6. janúar. Það er þrátt fyrir að fyrir liggi að Trump ræddi við fjölda fólks á þessum tíma.
Þetta var þegar fjölmargir stuðningsmenn Trumps ruddu sér leið inn í þinghúsið með því markmiði að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020, sem Trump tapaði og Joe Biden vann.
Ekki hafa fundist vísbendingar um að átt hafi verið við gögnin og því er talið að Trump hafi rætt við fólk með óformlegum leiðum. Gögnin voru afhent nefndinni fyrr á árinu eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna sagði þingið mega fá þau.
Sjá einnig: Hæstiréttur brást vonum Trumps
Í aðdraganda dagsins hringdi Trump í fjölmarga þingmenn Repúblikanaflokksins en hann vildi beita Mike Pence, varaforseta, þrýstingi og fá hann til að hafna úrslitum kosninganna í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. Það er eitthvað sem Pence hafði ekki formlegt vald til að gera.
Í frétt Washington Post segir að fyrir liggi að Trump hafi rætt við ýmsa bandamenn sína á tímabilinu sem um ræðir. Þeirra á meðal séu öldungadeildarþingmaðurinn Mike Lee og Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni.
Heimildarmenn WP í þinginu segja að verið sé að skoða hvort Trump sé að reyna að hylma yfir við hverja hann ræddi þennan dag og um hvað.