Skoðun

Að breyta Reykja­vík

Geir Finnsson skrifar

Fátt finnst okkur frambjóðendum skemmtilegra en að tala um breytingar. Hugsanlega er það vegna þess að flestir eiga sér draum um betra líf og því auðvelt að ná til fólks og ræða um jákvæðar nýjungar, án þess endilega að fara út í einhver smáatriði varðandi það sem maður vill breyta og hvernig.

Þessi grein fjallar vissulega um breytingar en ekki á þessum óljósu og draumkenndu nótum. Ég ætla að segja ykkur hvaða breytingar hafa átt sér stað á vakt Viðreisnar í Reykjavík og hvaða breytingum við viljum fylgja eftir, ef við fáum til þess endurnýjað umboð í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Breytt borgarskipulag og nýjar leiðir til að ferðast

Þótt ýmsir frambjóðendur boði nú breytingar og nýja tíma er það engu að síður raunin að einmitt núna er borgin að taka mjög miklum breytingum. Við erum að breyta skipulagi hennar svo hún fari frá því að vera dreifð og óþjónustuvæn bílaborg, þar sem foreldrar neyðast til að skutla og sækja börnin sín þvers og kruss um höfuðborgarsvæðið, yfir í mannvæna og græna borg þar sem þjónusta er aðgengileg öllum í eigin nærumhverfi. Við erum að breyta borginni svo við höfum raunverulegt val um hvernig við ferðumst á milli staða í stað þess að neyðast til að sitja föst í umferðarteppu, þar sem hið opinbera skipuleggur aðeins í þágu eins ferðamáta. Með flokk eins og Viðreisn í borgarstjórn gátu margar rafhlaupahjólaleigur hafið starfsemi og fengið að reyna hinn frjálsa og opna markað. Sumar drógu saman seglin en flestar blómstra, því að þannig er markaðurinn.

Breyttir skólar og nýjar leiðir

Skipulag borgarinnar breyttist því heilmikið og ferðamátarnir með því. Við í Viðreisn leggjum líka áherslu á breytingar í skólakerfinu, þar sem hægt er að nýta betur krafta einkaframtaksins til að taka mið af þörfum nemenda og gera fjölbreytni hærra undir höfði, hvort sem er í skipulagi eða rekstri skólakerfisins. Í leikskólamálum höfum við unnið hörðum höndum að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með byggingu talsvert fleiri leikskóla og gert starfsaðstæður betri svo fleira starfsfólk fáist þar til að starfa. Það eru forsendur þess að börn fái að hefja sína leikskóladvöl fyrr og nú þegar er meðalaldur þeirra barna sem komast inn farinn að lækka úr 24 mánaða niður í 18 og sú tala mun halda áfram að lækka verulega. Við þorum nefnilega að taka stór skref og látum ekki pólitískar kreddur, sem byggjast á ótta við einkaframtak, byrgja okkur sýn í því skyni.

Einfaldari og nútímalegri stjórnsýsla

Það þarf sömuleiðis kjark til að breyta stjórnsýslunni og því kerfi sem borgarbúum er boðið upp á. Undir forystu Viðreisnar síðustu fjögur ár hefur átt sér stað róttæk breyting í þeim efnum til þess að einfalda kerfið og fækka þeim óþarflega mörgu skrefum sem fólk og fyrirtæki þurfa að fara í gegnum til þess að fá þjónustu. Við breyttum skipulagi Reykjavíkurborgar til að einfalda kerfið, sameinuðum svið og fækkuðum ráðum. Við einfölduðum yfirstjórnina án þess að skerða mikilvæga þjónustu fyrir borgarbúa. Fyrir fólkið og fyrirtækin höfum við lagt mikla vinnu í að það verði þróuð betri rafræn þjónusta. Þannig erum við byrjuð að einfalda umsóknir fyrir einstaklinga og ferli í kringum þær, svo að þjónustan verði skilvirkari. Við höfum líka átt í góðu samtali við atvinnulífið um að greina óþarfa flækjustig í kerfinu. Þegar búið er að greina er auðveldara að framkvæma.

Viðreisn breytir borginni - Einfaldara líf fyrir þig

Með ofantöldum breytingum gerum við hversdagsleika borgarbúa betri. Við eflum nærþjónustu, gerum það þægilegra að ferðast á milli staða og bjóðum upp á skólakerfi sem er skilvirkt, þekkir og kemur til móts við þarfir nemenda og foreldra. Til þess að gera slíkt að veruleika þarf stjórnmálafólk sem bæði þorir að ráðast í nauðsynlegar breytingar og talar skýru máli um hvers konar breytingar það vill.

Þegar aðrir flokkar tala um að boða breytingar er ljóst að þeir tala um afturför til fortíðar, með dreifðri byggð og minni þjónustu. Með lengri biðlistum í leikskólum og einhæfari grunnskólum. Með stöðnuðu og útblásnu kerfi sem gagnast engum. Við í Viðreisn erum með þá skýru sýn að halda áfram að ráðast í nauðsynlegar kerfisbreytingar á öllum sviðum. Það gerir líf borgarbúa betra.

Höfundur er frambjóðandi í 4. sæti fyrir Viðreisn í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×