Við náðum að hitta örstutt á hópinn þegar þau komu út úr keppnishöllinni og voru á leið upp í rútuna sína. Þau voru þakklát, hrærð og stolt.
„Okkur líður mjög vel, þetta var mjög gaman.“ Þau gerðu ekki öll ráð fyrir því að komast áfram í kvöld og fá tækifæri til að flytja lagið aftur í úrslitunum á laugardag.
„Á Íslandi, þegar einhver segir manni nógu oft að maður sé ekki að fara að komast í gegn, þá er maður bara ó ókei. Svo allt í einu bara what?“
Ætla að taka því rólega á morgun
Aðspurð hvaða þýðingu það hafi fyrir þau að ná að koma skilaboðum sínum svona langt um allan heim svaraði Sigga:
„Það gefur okkur tilgang. Við getum haldið áfram að vera bæði tónlistarkonur og menn og berjast fyrir mannréttindum.“ Íslenski hópurinn hefur ítrekað nýtt vettvang sinn í Tórínó til að vekja máls á réttindum transbarna.
Varðandi planið þeirra á morgun sögðust þau ætla að drekka gott kaffi í sólinni.
„Á morgun er frí.“
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Mikil spenna ríkti í höllinni á meðan tilkynnt var hvaða atriði myndu komast áfram en Ísland var þriðja ríkið til að verða lesið upp í útsendingunni.
Auk Íslands komust Sviss, Armenía, Litháen, Portúgal, Noregur, Grikkland, Úkraína, Moldavía og Holland áfram í lokakeppnina á laugardag. Flutningur systkinanna gekk vel á sviðinu og hafa fjölmargir hrósað frammistöðunni á samfélagsmiðlum.
Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Dóra Júlía Agnarsdóttir eru fulltrúar fréttastofunnar á Eurovision í Tórínó á Ítalíu. Munu þær birta fréttir, viðtöl, hlaðvörp og auðvitað líka reglulega þætti af Júrógarðinum.
Alla umfjöllun okkar um Eurovision keppnina má finna HÉR á Lífinu á Vísi.