Á vef CNN er greint frá því að gengi evru hafi lækkað um tólf prósent frá upphafi árs, og í dag náð nákvæmlega sama gengi og Bandaríkjadollar. Gengi gjaldmiðlanna tveggja var því einn á móti einum áður en gengi evrunnar hækkaði á nýjan leik.
Gengi evru gagnvart Bandaríkjadollara hefur ekki verið lægra síðan seint á árinu 2002, og telja margir sérfræðingar að gengið gæti komið til með að lækka enn frekar.
Þannig telur George Saravelos, sérfræðingur hjá Deutsche Bank, að svo gæti vel farið að evran muni brátt kosta minna en einn dollara, eða um 95 til 97 sent.
„Það er að segja ef Evrópa og Bandaríkin sigla bæði inn í efnahagslega lægð, á sama tíma og seðlabanki Bandaríkjanna hækkar stýrivexti,“ hefur CNN eftir Saravelos.