Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, og innviðaráðherra voru meðal þeirra sem undirrituðu rammasamninginn í dag en í honum kemur fram að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum um land allt.
„Hér erum við að gera rammasamkomulag við sveitarfélögin um að sveitarfélögin séu tilbúin á hverjum tíma að vera með nægilega margar byggingarhæfar lóðir þannig að hægt sé að byggja þessar íbúðir, ekki síst þær sem að við viljum byggja á svokölluðu viðráðanlegu verði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Byggja þurfi fjögur þúsund íbúðir á ári næstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári næstu fimm ár þar á eftir, miðað við að 30 prósent þeirra íbúða verði á viðráðanlegu verði og fimm prósent verði félagslegar íbúðir.

Stórt skref í samvinnu
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir það nú undir sveitarfélögunum komið að gera samning við ríkið, eftir að þeir hafa skoðað stöðuna heima í héraði með tilliti til húsnæðisáætlana.
„Sveitastjórnarmenn, í samvinnu við sitt fólk, verða auðvitað að meta það hvort þörf sé á svona úrræðum eða ekki, en ég held að það sé á mjög mörgum stöðum nauðsynlegt að grípa til einhvers konar aðgerða til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði,“ segir Aldís.
Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar og með honum geta ríki og sveitarfélög gert með sér samkomulag um sameiginlega sýn á aðgerðir og umbætur. Aldís segir þetta stórt skref.

„Það er svo mikilvægt að muna að það er ekki bara hægt að gera kröfu á sveitarfélögin um að úthluta lóðum undir íbúðarhúsnæði, heldur verður að muna að þeim úthlutunum fylgja alls konar aðrar skuldbindingar hjá sveitarfélögum, oft á tíðum mjög kostnaðarsamar, og þá er mikilvægt að vita til þess að við getum leitað sameiginlegra leiða og lausna varðandi uppbyggingu slíkra innviða,“ segir hún.
Halda áætlun þrátt fyrir kólnandi fasteignamarkað
Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS kemur fram að merki séu um viðsnúning á fasteignamarkaði þar sem framboð hafi aukist og eftirspurn minnkað. Innviðaráðherra segir þó ljóst að uppsöfnuð þörf sé til staðar, ekki síst frá þessu ári, og að til mikils sé að vinna.
„Ríkisstjórnin er alveg einhuga um að standa við bakið á þessari uppbyggingu. Þetta kallar auðvitað á einhver fjárútlát í fjárlögum næsta árs og næstu ára, en það er líka eitthvað sem við höfum verið að ræða meðal annars við aðila vinnumarkaðarins sem hafa verið þátttakendur í þessari vinnu líka,“ segir Sigurður Ingi um framhaldið.
„Ég er sannfærður um það að með svona samstilltu átaki, samvinnu margra, að þá munum við lyfta grettistaki í að gera húsnæði öruggara á Íslandi,“ segir Sigurður Ingi.