Í upphafi árs mældist tólf mánaða verðbólga 5,7 prósent en í júlí var hún komin upp í 9,9 prósentustig og hafði ekki verið meiri í tæp þrettán ár. Þrátt fyrir spár viðskiptabankanna um að verðbólgan færi yfir tíu prósent í ágúst minnkaði hún milli mánaða og mældist 9,7 prósent.
Greiningadeild Landsbankans spáir því nú að verðbólga í september minnki enn frekar, fari niður í 9,6 prósent, og verði komin niður í 8,8 prósent í desember.
Fasteignamarkaðurinn hefur keyrt verðbólguna áfram undanfarna mánuði en í ágúst var vægi húsnæðiskostnaðar um fjögur prósent af 9,7 prósentustigum. Ferðir og flutningar voru næst stærsti hlutinn eða 1,6 prósent.
Þriðji stærsti flokkurinn var síðan matur og drykkjavörur og átti sá flokkur 1,3 prósent í verðbólgunni.

En hafa neytendur fundið fyrir því að matarkarfan hafi hækkað?
„Já ég myndi nú segja það, alveg töluvert. Einn poki kannski fer úr því að vera fimm þúsund í það að vera sjö þúsund kall,“ segir Svava Marín Óskarsdóttir.
„Aðeins en kannski ekki svo ýkja mikið,“ segir Sveinn Ragnar Jónsson.
„Já, það geri ég alveg helling, mjög mikið á þessu ári,“ segir Hildur Margrét Einarsdóttir.
„Já, ég finn fyrir því. Ég er svona að versla inn á heimili í fyrsta skiptið núna á ævinni, ungur maður. Þannig já,“ segir Egill Örnuson Hermannsson.
„Ég verð vör við það já. Ég finn bara fyrir því þegar ég kem að kassanum að almennt hafa vörur hækkað,“ segir Hrafnhildur Helgadóttir.
Bætist ofan á aðrar verðhækkanir
Kaffi, te og kakó hefur hækkað mest í verði, eða um 14,2 prósent frá því í upphafi árs. Þá hefur kjöt hækkað um 9,2 prósent frá upphafi árs, fiskur um 7,2 prósent, olíur og feitmeti um 6,9 prósent, og mjólkurvörur og egg um 5,7 prósent.
Frá því að heimsfaraldurinn hófst hefur hækkunin verið enn meiri, eða allt að 25 prósent.
Samkvæmt upplýsingum frá verðlagseftirliti Alþýðusambandsins er ekki mikið tilefni til frekari hækkana en neytendur finna vel fyrir þeirri hækkun sem hefur þegar átt sér stað. Það bætist síðan ofan á hækkanir á öðrum sviðum, til að mynda hærra bensínverð og aukinn húsnæðiskostnað.
„Auðvitað hangir þetta allt á sömu spýtunni, það eru launin og það sem maður hefur í vasanum, það tekur á því. Mér finnst þetta bara ömurlegt fyrir fólk sem er með börn og svona,“ segir Hrafnhildur.
„Þetta fylgir allt saman. Líka bara fyrir börn í fótbolta og fimleikum og svoleiðis þá er þetta orðinn ansi dýr pakki, getur maður sagt,“ segir Svava.