Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að starfsemi utanríkisráðuneytisins verði komið fyrir í byggingunni, ásamt því að hluti hennar verði nýttur undir sýningar- og menningartengda starfsemi á vegum Listasafns Íslands. Þar verði einkum litið til samtímalistar.
„Töluverð tækifæri eru til staðar til að tengja fyrirhugað sýningarrými við þá menningarstarfsemi sem þegar fer fram í Hörpu og síðar Listaháskóla Íslands sem koma á fyrir í Tollhúsinu,“ segir í tilkynningunni.
Þröngur húsakostur
Í tilkynningunni segir að húsnæðiskostur Stjórnarráðsins sé háður miklum annmörkum - húsnæði ráðuneytanna sé sundurleitt, á mörgum stöðum og í mörgum tilfellum úrelt.
Þá hafi verið lögð áhersla á að ráðuneyti séu staðsett í námunda við hvert annað til að styrkja samstarf þeirra og skapa tækifæri til hagræðingar og samnýtingar á þjónustu. Áfram verði unnið að úrbótum í húsnæðismálum annarra ráðuneyta.
Í tilkynningunni segir að utanríkisráðuneytið muni missa stóran hluta húsnæðis síns sem það hefur haft á leigu. „Með flutningi utanríkisráðuneytisins í Norðurhús Austurbakka verður starfseminni komið fyrir á einum stað í sveigjanlegu og nútímalegu húsnæði sem verður nýtt með hagkvæmum hætti.“

Borga arðinn til baka
Í tilkynningu segir að húsnæðið við Austurbakka verði keypt fyrir andvirði sérstakrar viðbótararðgreiðslu frá Landsbankanum til ríkissjóðs sem þegar hefur verið innt af hendi og kaupverðið nemi um 6 milljörðum króna miðað við fullfrágengið húsnæði. Ríkið er eini eigandi Landsbankans.
Sem áður segir er um að ræða um sex þúsund fermetrar og því er fermetraverð um ein milljón króna á fermetra. Það er töluvert lægra fermetraverð en á öðrum fasteignum við Austurbakka.
Vilja finna gamla Landsbankahúsinu hlutverk
Í tilkynningu segir að samhliða kaupum ríkissins á hlut nýs húsnæðis Landsbankann hafi verið ákveðið að ganga til samninga um kaup ríkisins á gamla Landsbankahúsinu við Austurstræti. Sú bygging sé eitt af helstu kennileitum borgarinnar og menningarsögulega verðmæt sem slík. Það teljist því álitlegur kostur að byggingunni verði fundið verðugt hlutverk í íslensku samfélagi, til að mynda undir starfsemi dómstóla en endurskipuleggja þurfi húsnæðismál þeirra til lengri tíma.
