37 ára gömul kona var myrt fyrir utan vinnustað sinn í bænum Holbæk í Danmörku á fimmtudagskvöld. Hún var barnshafandi og komin sjö mánuði á leið þegar hún var dregin út úr bifreið sinni og stungin ótal sinnum.
Ófætt barnið lifði árásina af enn lést í dag á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn. Hann var í mjög slæmu ástandi eftir árásina og tókst heilbrigðisstarfsfólki ekki að bjarga lífi hans.
Karlmaður og kona voru í gær handtekinn, grunuð um að hafa myrt konuna. Karlmaðurinn er talinn hafa stungið hana en konan er grunuð um að hafa tekið þátt í skipulagningu morðsins. Bæði hafa neitað sök. Danskir fjölmiðlar greina frá því að þau hafi skipulagt morðið í gegnum samskiptaforritið WhatsApp.
Þau grunuðu eru bæði með danskan og afganskan ríkisborgararétt. Þau eru sögð hafa þekkt konuna en hvernig þau tengdust öll hefur ekki komið fram. Nöfn þeirra hafa heldur ekki verið birt.
Rannsókn málsins er enn í fullu gangi sagði lögreglan í Holbæk í gær. Lögreglan leitar enn að tveimur karlmönnum sem eru taldir hafa orðið vitni að árásinni. Þeir eru grunaðir um að hafa verið að fremja rán í nágrenninu en lögreglan hefur sagt að þeir verði ekki handteknir vegna þess gefi þeir sig fram.