Gengi helstu rafmynta heims hefur hrapað í kjölfar hremminga FTX í vikunni. Fyrirtækið varð fyrir áhlaupi þegar viðskiptavinir þess vildu leysa út fé sé í hrönnum. Aðstandendur þess eru nú sagðir vinna að því í örvæntingu að safna um 9,4 milljörðum dollara frá fjárfestum og keppinautum til þess að eiga fyrir innistæðum.
Staða FTX versnaði enn þegar björgunartilraunir aðalkeppinautsins Binance fóru út um þúfur á miðvikudag. Stjórnendum Binance hugnaðist ekki það sem þeir sáu þegar þeir fengu að líta í bókhaldsbækur FTX.
Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bahamaeyja, þar sem FTX er skráð, frysti í gær eignir dótturfélags FTX og fór fram á að settur yrði skiptastjóri yfir bú þess. Reuters-fréttastofan segir jafnframt óstaðfestar fregnir um að hliðstæð yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaki nú Sam Bankman-Fried, forstjóra og stofnanda FTX, fyrir möguleg brot á lögum um verðbréf.
Bandarískir þingmenn krefjast þess nú að rafmyntarbransanum verði sett lög og vilja rannsókn á því hvað leiddi til falls FTX. Nokkrir fjárfestingasjóðir sem lögðu fé í FTX hafa þegar sagst hafa afskrifað þær fjárfestingar sínar.
Erfiðleikar FTX er sagðir hafa byrjað fyrr á þessu ári þegar Bankman-Fried kom öðrum rafmyntarfyrirtækjum sem voru í kröggum til bjargar. Hann er sagður hafa lagt að minnsta kosti fjóra milljarða dollara í fyrirtækið Alameda. Fulltrúar Binance sem skoðuðu kaup á FTX líktu bókhaldi þess við svarthol þar sem engin leið væri að greina á milli eigna þess og skulda Alameda.