Kyana Sue Powers stofnaði viðburðinn á Facebook en um er að ræða hefð sem hefur á undanförnum árum notið gríðarlegra vinsælda víðs vegar í Bandaríkjunum. Sjálf hefur hún nokkrum sinnum tekið þátt í slíkum viðburðum í Boston, þar sem hún bjó áður en hún flutti til Íslands.

„Vanalegast eru jólasveinar út um allt á götunni og stundum þekkir þú ekki einu sinni vini þína af því að þeir eru bara allir með skegg og hatt,“ segir Kyana. „Svo eru barirnir og klúbbarnir með hálfgerð eftirpartý og þú djammar bara alla nóttina og þetta er ein af þessum helgum sem þú gleymir aldrei.“
„Mér datt í hug að það væri bara frábær viðburður til að koma með til Íslands því að fólk á Íslandi elskar að djamma,“ segir Kyana og hlær.
Rætur hefðarinnar má rekja aftur til tíunda áratugarins og er viðburðurinn í dag hvað stærstur í New York, þó hann fari vissulega fram í hundruð borga víðs vegar um heiminn, til að mynda í London.

Í Bandaríkjunum er aðeins einn jólasveinn og því ekki mikil fjölbreytileiki fyrir fólk sem ákveður að klæða sig upp sem jólasveinninn. Hér á landi eru þeir þó þrettán, allir með mismunandi útlit og persónuleika, auk Grýlu, Leppalúða og jólakattarins.
„Mér fannst bara rosa áhugavert að gera þetta á Íslandi því að þið eruð með svo marga jólasveina. Þannig það verða ekki bara allir klæddir í rauða búninga, það verða alls konar jólasveinar og ég held að þetta verði bara mjög spennandi. Það verður gaman að sjá hvernig fólk mun klæða sig,“ segir Kyana.
Hún bendir þó á að fólk megi einnig klæða sig upp sem aðrir jólakarakterar, eins og til að mynda álfar eða hreindýr, og jafnvel sem eitthvað allt annað tengt jólunum, til dæmis jólatré eða jólagjöf.

Í New York fer SantaCon fram í dag en viðburðinum var frestað árið 2020 og fór síðan fram árið 2021. Í Bandaríkjunum snýst viðburðurinn einnig um góðgerðarstarfsemi samhliða drykkjunni en Kyana segir aldrei að vita hvernig hefðin þróast hér.
„Þetta verður fyrsta árið og hver veit hvað þetta verður vinsælt en ég held að þegar þetta byrjar að verða vinsælla á næstu tveimur árum kannski þá muni allir fara að taka þátt,“ segir Kyana og bendir á mögulega muni það jafnast á við vinsældir J-dagsins svokallaða, þegar sala hefst á Tuborg-jólabjór.
Röltið fer fram laugardaginn sautjánda desember og hefst efst á Laugaveginum áður en förinni er heitið niður í bæ en nánari dagskrá verður kynnt þegar nær dregur. Þangað til geta áhugasamir fundið einhverjar hugmyndir að búning á myndunum hér fyrir neðan.













