Lífið

Frétta­maður sló í gegn í beinni: „Má ég fara aftur í venju­legu vinnuna mína?“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mark Woodley segir að yfirmenn hans á sjónvarpsstöðinni hafi haft gaman að vitleysunni.
Mark Woodley segir að yfirmenn hans á sjónvarpsstöðinni hafi haft gaman að vitleysunni. Skjáskot/Twitter

Fréttamaður sjónvarpsstöðvarinnar KWWL í Bandaríkjunum sló í gegn í beinni útsendingu í gær þegar hann fjallaði um óveðrið í Bandaríkjunum. Hann er íþróttafréttamaður og kvartaði sáran yfir því að hafa verið sendur út í óveðrið.

Íþróttafréttamaðurinn, Mark Woodley, segist óvanur því að fjalla um veðrið: „Það er búið að aflýsa öllum íþróttaleikjum næstu daga. Og hvað er þá betra en að láta íþróttafréttamanninn vakna fimm klukkutímum fyrr, mæta í vinnuna, til þess eins að hann geti staðið úti í fimbulkulda og snjókomu?“

Woodley sagðist þaulvanur sjónvarpsþáttum, sem vanalega væru um 30 mínútna langir, en hann væri ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að standa úti í kuldanum í fleiri klukkutíma. Hann hvatti áhorfendur til að fylgjast vel með, enda yrði hann líklega pirraðri með hverjum klukkutímanum sem liði.

„Má ég fara aftur í venjulegu vinnuna mína? Ég er nokkuð viss um að kollegar mínir hafi bætt við auka klukkutíma bara til að stríða mér,“ sagði Woodley í útsendingunni.

Sjónvarpsstöðin KWWL er hluti af CNN og segir Woodley í viðtali við miðilinn síðarnefnda að hann sé almennt kaldhæðinn. Hann bætir við að yfirmenn hans hafi haft gaman af gríninu og birti sjálfur myndband með nokkrum vel völdum myndbrotum á Twitter, sem vakið hafa mikla lukku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.