Auglýsingaherferð heilsugæslunnar þar sem fólki er réttilega bent á að hvimleitt sé að fá niðurgang í bílnum og betra að æla bara heima, hefur vakið mikla athygli.
Nokkrir íbúar á Grund saumuðu skilaboðin út með krosssaumi í dag en þeim íbúum sem fréttastofa ræddi við þykir skilaboðin heldur furðuleg og í besta falli afskræmi af þeirri fallegu og rótgrónu setningu: Heima er best.
„Það er náttúrulega skömm af þessu. Það er sagt heima er pest. Það er voða ljótt. Þetta er klúður,“ segir Ragnheiður Baldursdóttir.

„Þetta var hugmynd hjá auglýsingastofunni að koma með þessa skemmtilegu tilvitnun í Heima er best og þessar kæru konur hér sjá það strax að þetta eru skrítin skilaboð að segja heima er pest, það sé rangt,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hvað ætti að standa?
„Heima er best, það er það sem hefur alla tíð gengið,“ segir Ragnheiður Baldursdóttir.

„Heima er pest, það er heimapest,“ segir Valgerður Kristjánsdóttir.
„Þetta er einhver sem er að gera grín, halda að þetta sé grín. En þetta er ekki grín,“ segir Ragnheiður.
30 þúsund beiðnir um vottorð á ári
Nei grínið fellur mis vel í kramið. Ragnheiður Ósk segir að auglýsingin hafi að minnsta kosti svínvirkað, en markmið hennar er meðal annars að efla heilsulæsi fólks og hvetja atvinnurekendur til að sýna því skilning að fólk þurfi að vera heima þegar það er veikt.
„Og við erum til dæmis núna að fá á hverju ári 30 þúsund beiðnir um vottorð fyrir fólk sem er veikt heima með flensu og það þykir okkur illa með tímann farið.“

Ragnheiður er afdráttarlaus þegar hún er spurð hvað henni finnist um skilaboðin á myndinni hér að ofan.
„Ég myndi ekki setja þetta í kynningu eða auglýsingu eða neitt, þetta er bara bjánagangur,“ segir Ragnheiður Baldursdóttir.