Lífið

Seinni fimm flytj­endum Söngva­­keppninnar lekið

Elma Rut Valtýsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Móeiður Júníusdóttir, Kristín Sesselja Einarsdóttir, Langi Seli og skuggarnir, Arnar Bragi Bergsson og Benedikt Gylfason eru sögð keppa í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár.
Móeiður Júníusdóttir, Kristín Sesselja Einarsdóttir, Langi Seli og skuggarnir, Arnar Bragi Bergsson og Benedikt Gylfason eru sögð keppa í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. Samett

Twitter-notandinn Crystal Ball ESC, sem farið hefur mikinn undanfarnar vikur og birt upplýsingar um keppendur í undankeppnum ýmissa þátttökuþjóða Eurovision, birti lista þátttakenda í Söngvakeppninni á síðu sinni í dag. Fullyrt er að um sé að ræða þau tíu atriði sem bítast um farseðilinn fyrir Íslands hönd í Eurovision.

Vísir greindi frá fimm keppendanna í gær sem koma heim og saman við afhjúpun Krystalskúlunnar í dag. Ekkert hafði komið fram um hins fimm flytjendurna. Móeiður Júníusdóttir, Kristín Sesselja Einarsdóttir, Langi Seli og skuggarnir, Arnar Bragi Bergsson og Benedikt Gylfason eru sögð meðal keppenda í Söngvakeppni Sjónvarpsins.

Krystalkúlan fyrrnefnda birti tíu flytjenda listann eftir hádegi í dag. Á listanum eru þeir fimm flytjendur sem Vísir tilkynnti í gær. Það eru þau Kjalar Martinsson, Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir, Úlfar Viktor Björnsson, Diljá Pétursdóttir og hljómsveitin Celebs.  

Samkvæmt heimildum Twitter síðunnar syngur söngkonan Silja Rós með Kjalari. 

Trúnaður ríkir milli keppenda og RÚV varðandi þátttöku í keppninni. Vísir hefur rætt við nokkra af þeim keppendum sem stíga á svið á morgun. Sumir hafa staðfest þátttöku sína en aðrir neitað að tjá sig. Enginn hefur neitað því að vera meðal keppenda.

Færslu Eurovision síðunnar Crystal Ball ESC má sjá hér fyrir neðan.

Móa

Móeiður Júníusdóttir hóf tónlistarferilinn árið 1997 en hefur aldrei tekið þátt í undankeppni Eurovision. Hún sneri aftur í tónlistina árið 2021 með nýju lagi og tónlistarmyndbandi undir nafninu Móa. Í samtali við Vísi sagðist hún þá hafa byrjað að semja tónlist aftur tveimur árum áður.

Móa lærði guðfræði og uppeldis-og menntunarfræði og starfar við kennslu. Hún er gift þriggja barna móðir og segir að það séu mikil forréttindi að fá að starfa með unglingum. Á Spotify má finna mikið af tónlist frá tónlistarkonunni frá árunum 1993 til 1998. Í nýrri lögunum má þó heyra nýjan tón.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið við lagið hennar Pure. 

Kristín Sesselja

Kristín Sesselja hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi síðastliðin ár og var sem dæmi valin Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum árið 2021. Í fyrra flutti Kristín til Osló þar sem hún er búin að skrifa undir samning við plötufyrirtækið Balance It Out.

„Ég er að fara að gefa út EP plötu á árinu með fullt af lögum um þennan tilfinningarússíbana. Svo er ég aðeins komin aðeins heim frá Osló, þar sem er búin að búa í eitt ár, til að vinna í verkefnum á Íslandi,“ segir Kristín Sesselja í viðtali við Lífið á Vísi á dögunum.  

Hér fyrir neðan má heyra lagið I'm Still Me sem kom út fyrr í vikunni. Taka skal fram að þetta er ekki lagið sem hún mun flytja í Söngvakeppninni.

Bragi

Knattspyrnumaðurinn Arnar Bragi Bergsson vakti athygli þegar hann keppti í sænska Idolinu árið 2018. Arnar Bragi komst alla leið í fjögurra manna úrslit. Söngvarinn er kallaður Bragi Bergsson í Svíþjóð og hafði slegið í gegn í þáttunum en fimmtán þúsund manns hófu leik í Idolinu þetta ár. Á Íslandi var hann betur þekktur sem fótboltamaður og spilaði með ÍBV og Fylki áður en hann fór að spila erlendis. 

Hér fyrir neðan má sjá flutning hans á laginu Against All Odds í fjögurra manna úrslitum sænsku Idol keppninnar árið 2018.

Benedikt

Popptónlistarmaðurinn Benedikt er ungur og efnilegur söngvari, lagahöfundur og pródúsent úr Reykjavík. Hann vakti mikla athygli árið 2021 þegar hann var eina einstaklingsatriðið sem komst áfram á úrslitakvöld Músíktilrauna. 

Hann stundar nám við MH og er í söngnámi í Menntaskóla í Tónlist sem og námi í jazzpíanóleik. Þörfin fyrir að standa á sviði hefur alltaf verið mikil samkvæmt viðtali sem birtist við hann á Vísi árið 2021. Benedikt byrjaði ungur að semja tónlist, bæði klassíska sem og popp. Hann kom mikið fram opinberlega þegar hann var yngri. Hann hefur verið í leikhúsi, óperum, var í klassísku listdansnámi og hefur verið virkur í kórastarfi.

Hér fyrir neðan má heyra eldra lag frá honum sem kallast Diamond.

Langi Seli og Skuggarnir

Hljómsveitin Langi Seli og Skuggarnir var stofnuð árið 1988. Gaf hljómsveitin út plöturnar Rottur og kettir árið 1990 og  Drullukalt árið 2009.

Hér fyrir neðan má sjá myndband við lagið Rabbi Rotta með hljómsveitinni Langi Seli og Skuggarnir af plötunni Rottur og kettir frá árinu 1990. Úr safni Alda Music.

Flutti hljómsveitin líka lagið Bensínið er búið fyrir Rás 2 fyrr í vikunni. Upptökuna má sjá hér fyrir neðan.

Algengt að út spyrjist hverjir keppi

Alls keppa tíu atriði í Söngvakeppninni og nú ætti listi flytjenda því að vera upptalinn. RÚV tilkynnir lögin tíu og flytjendur þeirra formlega á laugardag. Taka skal fram að RÚV hefur ekki staðfest að þetta sé listinn yfir atriðin tíu sem taka þátt í Söngvakeppninni í ár. 

137 lög sóttu um þátttöku og valdi valnefnd FÍH, FTT og RÚV sex þeirra til þátttöku. Til viðbótar var leitað til fjögurra flytjenda sem munu einnig taka þátt í keppninni. Lögin tíu, höfundar og flytjendur verða kynnt á RÚV á laugardaginn.

Undankeppni fyrir Eurovision fer fram þessa dagana og vikurnar í fjölmörgum þátttökulöndum. Algengt er í öðrum löndum að út spyrjist hverjir keppa í undankeppnunum. Hins vegar hefur verið stærri vandi að dæmi eru um að lögunum sjálfum hefur verið lekið áður en þau hafa verið flutt.

Hafa gert ráðstafanir vegna leka

Það var einmitt tilfellið í fyrra. Þá var öllum hljóðupptökum af lögunum sem kepptu í Söngvakeppninni lekið á netið áður en þau voru frumflutt í beinni útsendingu hjá Ríkisútvarpinu.

Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri Söngvakeppninnar hjá Ríkisútvarpinu, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að vinnuskipulag um vistun gagna hafi verið breytt svo lögunum verði ekki lekið á netið áður en þau verða kynnt í þættinum á laugardag. 

„Við höfum gert ráðstafanir sem við teljum og auðvitað vonum að geri það að verkum að svona leki, eða þjófnaður komi ekki upp í ár.“

Ekki náðist í Rúnar Frey við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Enn bætist í hóp flytj­enda í Söngva­keppninni

Hljómsveitin Celebs er á meðal þeirra flytjenda sem munu taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. Hljómsveitina skipa systkinin Valgeir Skorri Vernharðsson, Hrafnkell Hugi Vernharðsson og Katla Vigdís Vernharðsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.