Ganga má út frá því að í þeim áformum felist gjaldtaka á stóru malarbílastæði á móti aðalbyggingu skólans, sem hundruð nemenda nýta sér hvern dag á meðan farið er í tíma. Nú þegar er gjald tekið í „skeifunni“ beint framan við aðalbygginguna.

„Úff. Ég get ekki borgað meira. Þegar það er vont veður leggur maður þarna fyrir ofan og borgar einhvern sjö hundruð kall. Ég gæti alveg borgað af og til en ef þetta stæði verður líka [stórt stæði á lóð við háskólann], er einhvern veginn ekkert eftir fyrir okkur þar sem maður þarf ekki að borga,“ segir Tinna Þórsdóttir laganemi.
Á svipuðum nótum talar Sigurður Pétursson sagnfræðinemi, hann bendir á stæðið þar sem þegar er rukkað og segir: „Ég er mjög á móti þessu. Ég lít á þetta ókeypis stæði sem stæði fyrir plebba eins og mig. En fyrir þá ríku, þá mega þeir alveg leggja þarna uppi.“

Verkfræðinemarnir Valdimar Sverrisson og Atli Kristjánsson eru hins vegar á því að þessi ráðstöfun myndi hvetja fólk til að nýta sér almenningssamgöngur, í það minnsta þá. Aftur á móti benda þeir á að ef háskólinn hyggist taka gjald fyrir malarbílastæði í Vatnsmýrinni, ætti skólinn að sinna bílastæðinu og gera það nothæfara fyrir nemendur.