Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Ætli mér finnist ekki skemmtilegast hvernig hún merkir tíma og tengir okkur við augnablik í eigin lífi. Listakonan Louise Bourgois orðaði það mjög fallega:
„These garments have a history, they have touched my body, and they hold memories of people and places. They are chapters from the story of my life.“

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Mjög erfið spurning, ég á nokkrar flíkur sem eru mér mjög dýrmætar.
Mamma gaf mér ótrúlega fallegan kjól sem ég hafði fundið í vintage búð í London í tvítugsafmælisgjöf. Hann er fullkomlega tímalaus og í hvert einasta skipti sem eg fer í hann líður mér eins og ég sé í bíómynd frá gullnu árum Hollywood.

Vintage toppur frá La Perla er líka í miklu uppáhaldi. Ég hef aldrei séð neitt líkt honum áður.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei, sjaldnast. Flesta morgna er ég tiltölulega fljót að láta mér detta eitthvað sniðugt outfit í hug sem er viðeigandi fyrir athafnir dagsins.
En svo auðvitað kemur það fyrir af og til að ég máta hálfan fataskápinn minn án árangurs.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég fæ oft að heyra að ég sé of fín (overdressed) svona í daglegu lífi.
Mér þykir synd að horfa upp á fallegan og dýran fatnað og skó safna ryki inn í skáp svo ég nýti hvert tækifæri til að dressa mig aðeins upp.
En svo myndi ég segja að stíllinn minn væri frekar klassískur og tímalaus að mestu leyti. Ég elska falleg snið, föt sem búa til áhugaverð form. En svo finnst mér ótrúlega gaman að fjárfesta í öðruvísi statement flíkum sem gera annars einfalt lúkk pínu spicy.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Nei í rauninni ekki.
Frá leikskólaaldri hef ég verið mjög skoðanasterk hvað tísku varðar. Leyfði móður minni sko alls ekki að senda í mig í leikskólann í hverju sem er.
Smekkurinn minn hefur ekki tekið miklum breytingum síðan, fataskápurinn og úrvalið hefur bara stækkað.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Foreldrar mínir eru bæði alveg ótrúlega fallega klædd alltaf, svo ég tel mig mjög heppna að fá að stelast í fataskápinn hjá þeim af og til.
Ég sæki líka innblástur í kvikmyndir, ég elska Old Hollywood glamúr. Svo er auðvitað endalaust af töffurum á götum Lundúna, það er ekki annað hægt en að fá innblástur frá þeim.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ég er opin fyrir öllu nema útivistafatnaði.
Ég neita að fara í úlpur og útiföt. Gert það frá því að ég var krakki. Tek því allan daginn frekar að vera kalt í kápu en hlýtt í úlpu. Gönguskór, væri frekar á tánum.
Mjög ópraktískt fyrir Íslending.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Eftirminnilegasta flík sem ég hef klæðst, þó ég eigi hana því miður ekki, er vintage Roberto Cavalli kjóll sem ég klæddist í myndatöku einu sinni. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég hef aldrei klæðst jafn fallegri og vandaðri flík.
Svo leið mér líka svo ótrúlega vel í honum, þetta er svona flík sem gefur þér næstum því ofurkrafta.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Mitt besta ráð er að versla vintage. Ég myndi halda að fataskápurinn minn væri svona 80% notaður fatnaður. Miklu skemmtilegra að kaupa flík með karakter sem enginn annar á en að versla fjöldaframleidd microtrend.
Að spara frekar og kaupa fáar og vandaðar flíkur er eitthvað sem foreldrar mínir kenndu mér þegar ég var mjög ung og hefur orðið til þess að ég nota enn þá föt sem ég keypti mér þegar ég var fjórtán, fimmtán ára.