Ástráður Haraldsson settur ríkissáttasemjari boðaði samninganefndir Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á sinn fund í gærkvöldi. Fundurinn stóð frá klukkan átta til að verða miðnætti án eiginlegrar niðurstöðu en alla vega án þess að samningsaðilar skelltu hurðum, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Samningsaðilar settust ekki á sameiginlegan fund með sáttasemjara en hann gekk á milli herbergja í þreifingum varðandi möguleika á að leggja fram miðlunartillögu. Þau svör fengust hjá embætti ríkissáttasemjara í morgun en ekki hefði verið boðað til fundar með deiluaðilum í dag, hvað sem síðar kynni að gerast.

Það er ekki til að einfalda stöðuna að enn eru málaferli í gangi vegna deilunnar. Samtök atvinnulífsins skila greinargerð til Félagsdóms í dag vegna stefnu Alþýðusambandsins fyrir hönd Eflingar um að dómurinn úrskurði boðað verkbann SA á alla félagsmenn Eflingar ólöglegt. Verkbannið átti að hefjast næst komandi fimmtudag en SA frestaði gildistöku þess til mánudags í næstu viku eftir að settur ríkissáttasemjari boðaði deiluaðila til fundar í gær.
Þá mun Félagsdómur taka fyrir frávísunarkröfu ASÍ og ríkisins fyrir hönd embættis ríkissáttasemjara á kröfu Ólafar Helgu Adolfsdóttur fráfarandi ritara Eflingar um að hún og aðrir félagsmenn fái að greiða atkvæði um miðlunartillögu sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram í deilunni hinn 26. janúar. Ekki hafa verið greidd atkvæði um hana innan Eflingar þar sem forysta félagsins hefur ekki afhent kjörskrá félagsins sem Félagsdómur hefur þegar úrskurðað að Efling þurfi ekki að gera.

Verðbólgan setur síðan sitt strik í reikninginn en hún mælist nú 10.2 prósent og búast margir við að Seðlabankinn muni hækka meðalvexti sína enn frekar á næsta vaxtaákvörðunardegi hinn 22. mars næst komandi. Vextirnir voru síðast hækkaðir um 0,5 prósentustig hinn 8. febrúar og eru nú 6.5 prósent. Það þýðir að hratt gengur á útborganir hjá þeim sem nýlega keyptu sína fyrstu íbúð á óvertryggðum lánum og viðbótarlánum og höfuðstóll lána verðtryggðra lána hækkar mikið.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er líklegt að settur ríkissáttasemjari eigi a.m.k. í óformlegum viðræðum við deiluaðila í dag. Segja má að hann hafi svigrúm til mánudags að ná sáttum um að miðlunartillaga verði lögð fram og til atkvæðagreiðslu beggja aðila. En eftir aðverkbann SA tekur gildi á mánudag verður staðan mun erfiðari og þá fer að öllum líkindum að reyna verulega á þolinmæði Alþingis og ríkisstjórnar.