Það er óhætt að segja að síðustu ár hafi verið Khloé erfið. Khloé og Tristan eignuðust dótturina True árið 2018 en nokkrum dögum fyrir fæðinguna hafði komið upp um framhjáhald Tristans.
Hélt framhjá aftur og eignaðist lausaleiksbarn
Þeim tókst þó að vinna úr framhjáhaldinu og náðu þau aftur saman. Árið 2021 ákváðu þau að reyna að eignast annað barn saman með aðstoð staðgöngumóður. Nokkrum dögum eftir að staðgöngumóðirin varð ólétt, komst Khloé að því að Tristan ætti einnig von á barni með annarri konu. Hann hafði þá haldið framhjá Khloé aftur.
Hjákona Tristans fæddi dreng í desember árið 2021 og staðgöngumóðir fæddi dreng Khloé og Tristans í júlí árið 2022.
Sjá: Voru trúlofuð í leyni þegar hann barnaði aðra konu
Það hefur því ýmislegt gengið á innan fjölskyldunnar og kom það því mörgum á óvart þegar Khloé birti kveðju á afmælisdegi Tristans í gær. Í kveðjunni fór Khloé fögrum orðum um barnsföður sinn og sagði hann meðal annars vera besta föður sem hugsast gæti. Þá birti hún myndir af honum með börnum sínum, þar á meðal fyrstu myndirnar af sjö mánaða gömlum syni þeirra.
Fer fögrum orðum um Tristan í afmæliskveðju
„Ósk mín til þín er að þú haldir áfram að vilja bæta þig og gera betur. Vertu sterkur, góður, þolinmóður og frjáls. Haltu áfram að gera sjálfan þig og mömmu þína stolta,“ er meðal þess sem Khloé skrifar í kveðjunni.
Khloé og Tristan eru ekki tekin saman á ný og minnist Khloé hvergi á þeirra samband í kveðjunni. Hún talar einungis um það hve góður Tristan er sem faðir, bróðir og frændi. Út úr kveðjunni má þó lesa að þau hafi verið að vinna úr sínum málum og ætli að halda í virðingu og vinskap barnanna vegna.
Kardashian fjölskyldan búin að fyrirgefa?
Á myndunum má sjá Tristan með þremur af börnum sínum; ónefndum syni og dótturinni True sem hann á með Khloé og syninum Prince sem hann á úr fyrra sambandi. Í kveðjunni er einnig að finna myndir af honum með bróður sínum og frænku. Engar myndir eru af fjórða barni Tristans sem hann eignaðist í lausaleik.
Kim Kardashian, systir Khloé, og Kris Jenner, móðir Khloé, birtu einnig fallegar kveðjur til Tristans í tilefni dagsins. „Takk fyrir að vera svona sérstakur hluti af fjölskyldunni okkar. Ég elska þig svo ótrúlega mikið,“ er meðal þess sem Kris Jenner skrifar til Tristans og má því ætla að fjölskyldan sé hægt og rólega farin að taka hann í sátt á ný.