Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Stundum klukkan fimm, oftar klukkan átta og stundum klukkan tíu. Get ekki sofið út og finnst ég ekki þurfa það. En elska að sofa samt.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Vökva mig með sódavatni og nýlöguðu kaffi og tek nokkrar léttar teygjur. Nýt kaffisins meðan ég les tölvupósta og tékka á fréttum.
Svo bara byrjar ballið, annaðhvort í skrifstofuvinnu eða tónlistarsköpun og klukkan alltaf orðin fimm áður en þú nærð að segja Jó halló eða gúggúlúgú. Merkilegur andskoti.
Þá tekur venjulega við tveggja til þriggja tíma metnaðarfull matargerð....allt frá grunni.
Tek svo venjulega einn til tvo tíma til að loka vinnu dagsins.“
Hvaða sjónvarpsefni manstu eftir úr æsku sem þér fannst mjög mikilvægt að fylgjast spenntur með?
„FFH á RÚV. Geimverurnar voru bláar í svarthvítu. Sjóhverfingarnar svakalega kúl, geimskipin sennilega búin til úr pappa. Sterkasta sjónvarpsminning mín by far.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Var að klára frumsýningatarnir söngleikjanna Chicago þar sem ég er tónlistarstjóri og Draumaþjófurinn sem ég er höfundur af. Sit nú við að skipuleggja dagskrá Sinfóníunnar í Hofi fyrir 2023-2024 og er í samningaviðræðum við Hollywood Scoring LA varðandi upptökur á barnakór fyrir bandaríska kvikmynd. Verður hljóðritað 1. apríl ef samningar nást.
Svo klára ég Draumaþjófs breiðskífuna í hjáverkum og um helgar. Lögin byrjuð að dælast inn á veiturnar en breiðskífan með leiklestri Gunnars Helgasonar og öllum lögunum kemur út rétt fyrir páska.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Nota WIN – what is most important NOW.
Geri það sem er beint fyrir framan mig núna.
Mér hentar vel að vera alltaf að en haga mér samt alltaf eins og ég sé í geggjuðu sumarfríi. Þess vegna er aldrei slakað á kröfunum í matargerðinni. Þar er mitt „sen.““
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ef ég er ekki að spila eða á kvöldæfingum milli klukkan ellefu og hálf tvö.“