Dómur í Borgarholtsskólamálinu var kveðinn upp í vikunni. Fjórir voru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en einn þeirra fyrir líkamsárás. Mennirnir voru allir ákærðir fyrir vopnalagabrot en á meðal vopna sem beitt var í árásinni voru hnífar, kylfur, ljósaperur og hamar. Allir voru á tvítugsaldri, nema sá elsti, sem nú er 29 ára gamall.
Eins og fyrr segir voru þrír af fjórum sakfelldir, ýmist fyrir minni háttar líkamsárás eða sérstaklega hættulegar líkamsárásir. Ekki var fallist á neyðarvarnarákvæði hegningarlaga, þrátt fyrir að því hafi jafnan verið borið við.
Maðurinn þrítugi er bróðir eins sakborninganna. Hann var ákærður fyrir að hafa ítrekað kýlt sextán ára dreng í höfuð og búk. Við aðalmeðferð Borgarholtsskólamálsins sagði maðurinn atburðarrásina hafa verið á þá leið að hann hafi fengið símtal frá yngri bróður sínum sem sagðist hafa orðið fyrir hótunum. Hann hafi beðið stóra bróður um aðstoð.
Eldri bróðirinn sagðist því hafa mætt upp í Borgarholtsskóla til að skakka leikinn og ræða við drengina. Að hans sögn datt honum ekki til hugar að til átaka gæti komið, hans ætlun hafi aðeins verið að útkljá málin með samtali. Aðspurður sagði hann því ekki hafa hvarflað að sér að hafa samband við lögreglu. Fljótlega brutust út mikil áflog innan veggja skólans sem bárust einnig út fyrir bygginguna. Vopnum var beitt, svo sem hnífum, kylfum og hnúajárni.
Traðkað á honum
Sá elsti slasaðist nokkuð en meðal annars var ráðist að honum með hnífi. Þá var hann einnig kýldur í andlitið og þegar hann féll í jörðina var traðkað á honum, að því er fram kemur í héraðsdóminum sem fréttastofa hefur undir höndum.
Einn sakborninga hélt því fram að eldri bróðirinn hafi átt upptökin að slagsmálum með því að hafa kýlt hann í andlitið og það valdið kinnbeinsbroti. Honum hafi verið haldið niðri og eldri bróðirinn, ásamt öðrum, ráðist á hann.
Í dóminum segir að nokkur vitni hafi verið að meintu atviki. Framburður þeirra hafi hins vegar hvorki verið einróma né skýr. Einn hélt því fram að eldri bróðirinn hafi reynt að skakka leikinn, máli eldri bróðurins til stuðnings, en hann neitaði því alfarið að hafa ráðist að einhverjum. Hann hafi aðeins reynt að stilla til friðar.
„Það kemur verulega á óvart“
Héraðsdómari sagði að framburður eldri bróðurins fengi stuðning í vitnisburði annarra vitna, allra nema eins. Myndband sem lagt var fyrir dóminn var þar að auki talið sýna að hann hafi ekki ráðist á neinn. Því væri ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn þrítugi hafi gerst sekur um líkamsárás og var hann því sýknaður af ákæruliðnum.
Lilja Margrét Olsen, verjandi Gabríels Douane sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir þátt sinn í málinu, sagði við fréttastofu í vikunni að hún væri ósátt að eldri bróðirinn hafi verið sýknaður.
„Það kemur verulega á óvart að fullorðir menn sem ekki sækja nám, en koma inn í framhaldsskóla og taka þar þátt í átökum séu sýknaðir af verknaðinum.“