„Ekki hefur einhver séð systur mína eða heyrt eitthvað frá henni? Hún fór að heiman um 19 leytið í gærkvöldi og skilaði sér aldrei heim í nótt,“ sagði í skilaboðum frá eldri systur stúlkunnar sem voru í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum framan af degi í dag.
Fjölskyldan óttaðist að hún hefði farið með Guðmundi Elís Sigurvinssyni, dæmdum ofbeldismanni, þar sem þau hefðu verið í samskiptum undanfarið. Stúlkan er fædd 2007 og verður sextán ára á árinu. Guðmundur Elís verður 24 ára í sumar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu fékk Guðmundur vinnu á bát og var á leið í róður í morgunsárið klukkan fjögur. Skipstjórinn á bátnum mun hafa orðið afar hissa þegar hann fékk símtal í dag og spurður hvort það væri mögulega fimmtán ára stúlka um borð.
Samkvæmt heimildum fréttastofu viðurkenndi Guðmundur Elís að vinkona hans væri um borð og sagði skipstjórinn stúlkunni að hringja strax í foreldra sína. Var Guðmundur Elís í brúnni ásamt skipstjóra þar til báturinn kom til hafnar í Reykjanesbæ um klukkan 15:30 í dag. Þar biðu tveir lögreglubílar og var Guðmundur færður í járn og stúlkunni komið í öruggar hendur. Þá ræddi lögregla við skipstjórann.
Rannsókn málsins er á forræði Lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, staðfestir að embættið hafi aðstoðað kollega sína í Vestmannaeyjum við handtöku í dag.
Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum staðfestir að karlmaður hafi verið handtekinn að beiðni Lögreglunnar í Vestmannaeyjum eftir að henni bárust upplýsingar um að stúlkan hafi verið um borð í skipinu Grímsnes.
Hann segir að maðurinn hafi verið yfirheyrður og að málið sé í rannsókn. Hann getur ekki sagt til um það hvort hann sé grunaður um saknæma háttsemi. Þá liggi ekki fyrir að svo stöddu hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Fyrrverandi kærasta Guðmundar Elís hefur greint frá miklu ofbeldi í sambandi þeirra. Myndir sem sýndu áverka stúlkunnar vöktu mikla athygli og þótti mörgum tólf mánaða dómur mildur í því samhengi.
Þá var Guðmundur Elís handtekinn í september 2021 grunaður um kynferðisbrot gegn konu í Vestmannaeyjum. Jóhannes Ólafsson kveðst ekki búa yfir upplýsingum um stöðu rannsóknar þess máls.