BBC greinir frá því að 5 séu látnir og 6 slasaðir. Lögreglan hefur þegar sagt að búið sé að gera árásaraðilann „óvirkan“ og að ekki sé lengur hætta af honum. BBC greinir frá því að hann sé einn hinna látnu.
Um töluvert stóra lögregluaðgerð var að ræða. Þurfti staðarlögreglan að leita til alríkislögreglunnar, FBI, um aðstoð.
„Biðjum fyrir fjölskyldum þeirra sem urðu fyrir árásinni og fyrir allri Louisville borg,“ sagði ríkisstjórinn Andy Beshear, sem var á leiðinni á staðinn. Sjálfur segist hann hafa misst tvo vini í árásinni. Borgarstjórinn, Craig Greenberg, var þegar mættur á svæðið.
Á blaðamannafundi lögreglunnar, sem haldinn var rétt í þessu, kom fram að lögreglan telur að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki. Hann hafi verið fyrrverandi starfsmaður bankans.
Lögreglan var mætt á svæðið þremur mínútum eftir að tilkynning barst klukkan 8:30 að staðartíma. Þegar lögreglan mætti var árásarmaðurinn að skjóta úr byssu sinni. Var hann skotinn og lést á staðnum.
Fréttin var uppfærð klukkan 15:22