„Mig langaði bara aðeins að tala við ykkur um áhyggjur ykkar af líkama mínum,“ segir hún í upphafi myndbandsins. „Ég veit að ég ætti ekki að þurfa útskýra þetta fyrir neinum en mér líður eins og það að vera opin og berskjölduð gæti skilað einhverju.“
Grande segist hafa fengið mikið af athugasemdum á líkama sinn undanfarið og netverjar hafa haft orð á því að söngkonan hafi grennst óhugnanlega mikið. Grande segist aftur á móti vera mun heilbrigðari nú en áður.
„Sá líkami sem þið eruð búin að vera bera núverandi líkama minn við, er líkami minn í sinni óheilbrigðustu mynd. Ég var á sterkum þunglyndislyfjum og var að drekka ofan í þau og borða óhollt. Þá leit ég út fyrir að vera „heilbrigð“ að ykkar mati en ég var alls ekki heilbrigð,“ segir hún.
Vitum aldrei hvað fólk er að ganga í gegnum
Grande hvetur fylgjendur sína til þess að hætta að koma með athugasemdir sem snúa að líkamlegu útliti annarra, óháð því hvort þær athugasemdir séu jákvæðar eða neikvæðar. „Það eru til betri leiðir til þess að hrósa einhverjum.“
„Í fyrsta lagi getur heilbrigði litið mismunandi út. Í öðru lagi vitum við aldrei hvað fólk er að ganga í gegnum. Jafnvel þótt þú meinir vel þá er viðkomandi alveg örugglega að vinna í sínum málum með sínu stuðningsneti. Maður veit aldrei, svo verum góð við hvert annað.“
Myndbandið er þriggja mínútna langt og hafa rúmlega 54 milljónir manns horft á það á tæpum sólarhring.