„Þetta er í fyrsta sinn sem vopnaleit fer fram í innanlandsflugi á Íslandi og mun hún standa yfir frá klukkan 14:00 á morgun og til klukkan 17:00 á miðvikudag,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri innanlandsflugs hjá Isavia í samtali við Vísi.
Greint var frá málinu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins en BB.is greindi fyrstur miðla frá málinu í dag og sagði farþegum á Ísafirði hafa verið tilkynnt um mögulegar tafir vegna vopnaleitarinnar.
Handleit
Sigrún segir að Ísland sé allajafna með undanþágu þegar kemur að vopnaleit í innanlandsflugi en yfirvöld hafi metið sem svo að á meðan leiðtogafundi stendur sé það nauðsynlegt.
„Við biðlum til fólks um að mæta tímanlega í flug. Ekki síst vegna umferðartakmarkana sem verða í kringum Reykjavíkurflugvöll og tafir sem munu fylgja því en líka vegna þessara auknu öryggisráðstafanna.“
Aðspurð segir Sigrún að ekki hafi verið komið upp nýjum búnaði á Reykjavíkurflugvelli vegna leitarinnar. „Það er vopnaleitarbúnaður til staðar á alþjóðaflugvellinum en annars staðar er um að ræða handleit.“
Farþegar mæti vel tímanlega
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir félagið í góðu samstarfi við Isavia vegna leitarinnar. Hann segir hana að öðru leyti ekki hafa áhrif á starfsemina.
„En við viljum beina því til farþega líkt og Isavia að mæta vel tímanlega fyrir flug. Við erum að tala um níutíu mínútur þessa tvo daga,“ segir Guðni Sigurðsson í samtali við Vísi.