Stefnan snýst um fasteignasamninga Trump-fyrirtækisins í Kína, Frakklandi, Tyrklandi, Sádi-Arabíu, Kúvæt, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Óman frá því að Trump varð forseti árið 2017. Jack Smith, sérstaki rannsakandinn sem rannsakar meðhöndlun Trump á leyniskjölunum, gaf stefnurnar út.
Fyrirtækið sagðist ekki ætla að gera neina erlenda samninga á meðan Trump væri forseti. Eftir að hann lét af embætti er aðeins vitað til þess að hann hafi gert einn samning við sádiarabískt fyrirtæki um að ljá nafn sitt íbúðum, hóteli og golfvöllum í Óman, að sögn New York Times.
Saksóknararnir kröfðust í sömu stefnu upplýsinga um viðskipti Trump við LIV-mótaröðina í golfi. Hún er í eigu sádiarabískra stjórnvalda og hafa mót á vegum hennar verið haldin á golfvöllum í eigu Trump. Samningar um mótin voru gerð eftir að Trump tók leyniskjölin með sér.

Gögn um Miðausturlönd og Macron í fórum hans
Trump tók hundruð leyniskjala með sér þegar hann lét af embætti forseta árið 2021. Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna reyndi ítrekað að fá hann til að láta skjölin af hendi en án árangurs. Á endanum réðust útsendarar alríkisstjórnarinnar í húsleit á heimili hans í Flórída í ágúst.
Vitað er að á meðal þeirra leyniskjala sem Trump hafði með sér úr Hvíta húsinu voru einhver sem tengdust Miðausturlöndum. Gögn um Emmanuel Macron Frakklandsforseta voru einnig á meðal þeirra sem alríkislögreglumenn lögðu hald á við húsleitina.
Vísbendingar eru einnig um að Trump hafi gert lögmönnum sínum að afhenda ekki öll leyniskjölin sem voru í vörslu hans og koma þeim undan. Þannig hafi hann hindrað rannsókn yfirvalda.
Trump hefur ítrekað haldið því fram að skjölin séu persónuleg eign hans. „Ég tók skjölin. Ég má það,“ sagði Trump í sjónvarpsþætti CNN fyrr í þessum mánuði.
New York Times segir að Smith þurfi ekki endilega að skýra hvað Trump gekk til með því að hanga á leyniskjölunum til þess að sanna að fyrrverandi forsetinn hafi brotið lög.
Rannsókn Smith beinist einnig að tilraunum Trump til þess að halda í völdin eftir að hann tapaði forsetakosningunum árið 2020 og fjáröflun hans fyrir meintri rannsókn á kosningasvikum. Annar sérstakur rannsakandi kannar leyniskjöl sem lögmenn Joes Biden forseta létu vita af að hefðu fundist á skrifstofu og heimili hans.
Einn helsti lögmaður Trump sagði sig frá málinu
Á ýmsu hefur gengið í lögmannateymi Trump í málinu upp á síðkastið. Timothy Parlatore, einn helsti lögmaður fyrrverandi forsetans, sagði sig frá málinu nýlega og vísaði til ágreinings við Boris Epshteyn, náinn ráðgjafa Trump.
Sakaði hann Epshteyn um að gera lögmönnunum mun erfiðara um vik að verja Trump en það þyrfti að vera með því að koma í veg fyrir að þeir gætu skipst á upplýsingum um rannsóknina við Trump.
Talsmaður Trump hafnaði ásökunum Parlatore og sagði þær „afdráttarlaust rangar“.