Gísli Þorgeir var stór ástæða þess að Magdeburg fór með sigur af hólmi í Meistaradeildinni. Eftir að hafa meiðst illa á öxl í undanúrslitum gegn Barcelona var ekki talið líklegt að hann myndi taka þátt í úrslitaleiknum gegn Kielce.
Hinn 23 ára gamli Gísli Þorgeir var svo valinn verðmætasti leikmaður úrslitahelgarinnar en hann spilaði úrslitaleikinn aðeins degi eftir að hafa farið úr axlarlið í þriðja sinn á ferlinum.
Þjálfarinn ekki bjartsýnn
Í dag birtist viðtal við Wiegert í þýska dagblaðinu Bild. Þar segist þjálfarinn vonast til þess að Gísli Þorgeir komist í aðgerð í næstu viku. Wiegert tekur einnig fram að leikmaðurinn ráði hvar og hjá hverjum hann fari í aðgerð.
Wiegert tekur fram að Magdeburg viti ekki hversu lengi Gísli Þorgeir verði frá keppni en hann telur þó að um hálft ár sé að ræða. Það komi í ljós eftir aðgerðina.
Fari svo að Gísli Þorgeir verði frá keppni í sex mánuði þá er hann ekki að koma til baka fyrr en Evrópumótið í Þýskalandi hefst í janúar næstkomandi.
Fréttin hefur verið uppfærð.