Skoðun

Við erum að bregðast bændum!

Aðalsteinn Haukur Sverrisson skrifar

Verði nýjar gjaldskrárbreytingar Matvælastofnunar (MAST) innleiddar mun það vera byrjunin að endalokum landbúnaðar á Íslandi eins og við þekkjum hann í dag. Við tekur iðnaðarlandbúnaður eins og þekkist í nágrannalöndum okkar með tilheyrandi vanlíðan dýra og rýrari gæði afurða og er ekki til þess fallinn til að lækka afurðaverð vegna gríðarlegrar hækkun á þjónustu til bænda. Ég heyri í fjarska íslenska innflytjendur matvæla fagna þessari ákvörðun enda er ljóst að þetta er vatn á myllu þeirra. Nýjar gjaldskrárbreytingar mun leiða til gríðarlegrar hækkunar á íslenskum matvælum. Það mun bitna verulega á samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar sérstaklega á bændum sem skilgreina sig sem smáframleiðendur. Afleiðingarnar eru augljósar. Nýsköpun dregst verulega saman og möguleikinn til að kaupa afurðir beint frá býli þurrkast út.

Gjaldskrárbreytingarnar eru afleiðing innleiðingar evrópulöggjafar nr. 2017/625 um opinbert eftirlit. Líkt og margt annað sem við höfum innleitt vegna aðildar okkar að EES, þá eru þessi lög ekki samin með smæðar íslenska markaðarins í huga. MAST tekur fram að löggjöfin veiti þeim heimild til að innheimta kostnað til að standa straum af ýmsum kostnaðarþáttum m.a. launakostnaði þeirra sem sinna eftirliti, kostnaði vegna rekstrarvara, kostnaði vegna þjónustu os.frv. Því velti ég fyrir mér hvort þessi ákvörðun sé eingöngu tekin til að rétta af rekstur MAST við þetta eftirlit og færa aukinn kostnað alfarið á bændur? En þar með er MAST búið að loka fyrir ákveðna gátt í styrktarkerfi okkar til landbúnaðarins. Ég myndi halda að slík ákvörðun eigi ekki að vera í höndum MAST heldur ætti hún að koma fram sem skýr pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar, en ég efast hreinlega að sá vilji er fyrir hendi hjá þingfólki Framsóknar.

Ljóst er að fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir munu gjörbreyta landslagi á íslenskum landbúnaði. Þegar hefur verið tilkynnt um fyrirhugaðar lokanir ef þessar breytingar ná fram að ganga. Það þarf því að hætta við þessar hækkanir og hvet ég þingfólk Framsóknar til að standa þétt við bakið á okkar öflugu bændastétt.

Höfundur er Framsóknarmaður og borgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×