Í tilkynningu segir að Churchill, sem sé með bakgrunn í sálfræði, hafi lokið doktorsgráðu í hugrænum vísindum (e. Cognitive Science) frá Cambridge-háskóla árið 1993.
„Hún hefur síðustu áratugi rannsakað samskipti manns og tölvu og byggt upp notendaupplifunarteymi og rannsóknarhópa hjá fyrirtækjum á borð við Google, eBay, Yahoo, PARC og FujiXerox.
Í störfum sínum og rannsóknum hefur Churchill lagt áherslu á hvernig hægt sé að þróa samskipti manns og tölvu út frá forsendum manneskjunnar. Þá hefur hún beitt sér fyrir því að auka aðgengi fólks að tækninni, óháð til dæmis fötlun, tungumáli og félagslegum aðstæðum.
Í fyrirlestri sínum í HR mun Churchill deila sinni persónulegu sýn á fortíð, nútíð og framtíð samskipta manns og tölvu. Hún mun taka dæmi úr eigin verkum, segja frá því sem henni þykir áhugavert við framtíðina og velta fyrir sér þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heimi þar sem tæknivæðingin verður meiri með nánast hverjum deginum sem líður,“ segir í tilkynningunni.
Hægt er að fylgjast með fyrirlestrinum í spilaranum að neðan.
