Lífið

Valdi að verða sex­tug í stað þess að flytja til Eþíópíu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Yrsa Sigurðardóttir við hlið sinnar gömlu metsölubókar Kulda, sem nú er komin út í nýrri útgáfu í tilefni af frumsýningu nýrrar myndar.
Yrsa Sigurðardóttir við hlið sinnar gömlu metsölubókar Kulda, sem nú er komin út í nýrri útgáfu í tilefni af frumsýningu nýrrar myndar. Vísir/Vilhelm

Yrsa Sigurðar­dóttir, glæpa­sagna­drottning og marg­faldur met­sölu­höfundur, fagnar sex­tugs­af­mæli í dag. Hún segir ekkert planað í kvöld, annað en að skrifa næstu bók. Hún ætlar að halda upp á stór­af­mælið með pompi og prakt í febrúar að jóla­bóka­flóði loknu og segist ekki geta beðið eftir að sjá Kulda, sam­nefnda mynd sem byggir á bók hennar og kemur í kvik­mynda­hús í næstu viku.

„Dagurinn minn er bara búinn að vera krútt­legur. Ég fór í mat til mömmu og pabba í há­deginu og svo var það kaka á eftir,“ segir rit­höfundurinn í sam­tali við Vísi.

„Það var tvennt í boði. Að flytja til Eþíópíu, þar sem árið er 2016 ef ég man þetta rétt, og þeir eru af ein­hverjum á­stæðum sjö árum á eftir, eða bara að suck it up,“ segir Yrsa hlæjandi.

Í næstu viku kemur út kvik­myndin Kuldi, í leik­stjórn Erlings Thor­odd­sen og byggir hún á sam­nefndri met­sölu­bók Yrsu sem kom út árið 2012. Yrsa kveðst vera spenntari fyrir myndinni en eigin stór­af­mæli.

„Ég hlakka svo til að sjá hana og það er svo gaman að sjá hvað það eru flottir leikarar í henni. Ég held að Erlingur sé hár­réttur maður í þetta. Ég fæ bara að sjá myndina á for­sýningunni og get eigin­lega ekki beðið.“

Eigin­maður Yrsu, Ólafur Þór Þór­halls­son, verður sex­tugur í febrúar og segist Yrsa ætla að halda upp á sitt eigið stór­af­mæli með eigin­manninum við það til­efni.

Hvað ætlarðu svo að gera í kvöld?

„Ég veit það ekki, ætli ég skrifi ekki bara,“ segir Yrsa hlæjandi. „Þetta er al­gjör­lega sjálfri mér að kenna, ég er alltaf í ein­hverri sjálf­heldu á sumrin að skrifa. Að byrja fyrr, það er trikkið, en ég virðist ekki geta náð því. Þetta er ein­hver greindar­skortur.“

Er pressan fyrir jólin farin að segja til sín?

„Já, það er venju­lega á þessum tíma, svona í ágúst, sem hún fer að segja til sín.“


Tengdar fréttir

Erlingur leik­stýrði Juli­an Sands í hans síðustu mynd

Julian Sands var jarðbundinn, hlýr og rausnarlegur á sinn tíma. Þetta segir Erlingur Thoroddsen leikstjóri sem leikstýrði breska leikaranum í hans síðustu mynd sem ber nafnið The Piper. Leikarinn lést í fjallgöngu í Kaliforníu í janúar en lík hans fannst ekki fyrr en í þar síðustu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.